Innlent

Við getum lagað brotalamirnar

Hælisleitendur í Sundahöfn Innanríkisráðherra hyggst verða kominn með tillögur til að tryggja öryggi hafnarsvæðis fyrir lok september.Mynd/Eimskip
Hælisleitendur í Sundahöfn Innanríkisráðherra hyggst verða kominn með tillögur til að tryggja öryggi hafnarsvæðis fyrir lok september.Mynd/Eimskip
„Að mati ráðuneytisins er það ótvíræð ógn við siglingavernd ef óviðkomandi aðilar komast inn á afgirt hafnarsvæði og því nauðsynlegt að grípa til viðeigandi aðgerða til þess að stemma stigu við því," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær telur Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins, hættu á að yfirvöld í Bandaríkjunum banni beinar siglingar frá íslenskum höfnum vestur um haf komist hælisleitendur héðan sem laumufarþegar til Bandaríkjanna.

„Ég hef ekki forsendur til að meta það," svarar innanríkisráðherra aðspurður um mat sitt á fullyrðingu Gylfa. „Það eina sem ég hef forsendur til að meta er hvers við erum megnug og ég er alveg sannfærður um að við getum lagað þær brotalamir sem þarna eru á."

Ögmundur segir innanríkisráðuneytið bera saman bækur sínar við yfirvöld annars staðar á Norðurlöndum. „Við höfum óskað eftir fundi með fulltrúum Eimskipafélagsins í næstu viku til að fara yfir málin en jafnframt vil ég sjá einhverjar handfastar tillögur þeirra aðila sem hafa með þessi mál að gera fyrir lok septembermánaðar," segir ráðherrann og nefnir þar stofnanir eins og Siglingastofnun, hafnaryfirvöld og siglingaverndarráð.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×