Íslendingar fá loksins að fylgjast með einum umtalaðasta íþróttamanni þjóðarinnar, Gunnari Nelson, í beinni útsendingu í kvöld.
Gunnar keppir þá í blönduðum bardagaíþróttum, MMA, í Dublin á Írlandi. Gunnar mætir Alexander Butenko sem er sagður gríðarsterkur og helsta von Austurblokkarinnar í MMA.
Til stóð að Árni Ísaksson myndi einnig berjast í kvöld en andstæðingur hans dró sig úr keppni þannig að Gunnar sér einn um að halda uppi heiðri Íslands í Dublin.
Stöð 2 Sport sýnir beint frá bardögum kvöldsins og hefst útsending klukkan 21.30.

