Innlent

Vantar höfuðkirkju segir sveitarstjóri

Ísólfur Gylfi Pálmason Sveitarstjórinn í Rangárþingi eystra segir vanta höfuðkirkju fyrir stærri athafnir í Rangárvallasýslu.Fréttablaðið/Jón Sigurður
Ísólfur Gylfi Pálmason Sveitarstjórinn í Rangárþingi eystra segir vanta höfuðkirkju fyrir stærri athafnir í Rangárvallasýslu.Fréttablaðið/Jón Sigurður
Sóknarnefnd Stórólfshvolskirkju vill að Rangárþing eystra komi að byggingu nýrrar kirkju og samnýtingu húsnæðis og starfsmanns.

„Jöfnunarsjóður kirkna hefur heitið 95 milljónum varðandi hugsanlega kirkjubyggingu á Hvolsvelli og það er spurning hvernig sveitarfélagið kemur að þeirri byggingu. Fyrst og fremst leggjum við til lóð og bílastæði og svo er hugsanleg samnýting á félagsheimilinu Hvoli," segir Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri.

„Hugmyndirnar eru ómótaðar og í algjörum frumdrögum en þetta er spurning um ákveðna samvinnu í framtíðinni milli samkomuhússins og kirkjunnar og jafnvel hvort hægt er að hafa sameiginlegan húsvörð," segir Ísólfur Gylfi sem kveður þörf á höfuðkirkju í Rangárvallasýslu.

„Í Árnessýslu er Skálholt til dæmis höfuðkirkja uppsveitanna. Hér eru margar litlar kirkjur en það vantar í raun eina höfuðkirkju fyrir stærri athafnir. Hugmyndin er sú að þetta verði nokkurs konar menningarmiðstöð" segir sveitarstjórinn sem telur framkvæmdir geta hafist á árinu 2013 ef allt gangi að óskum.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×