Skoðun

Lækkun húsnæðisskulda

Júlíus Sólnes skrifar
Umræðan um almenna lækkun húsnæðisskulda landsmanna heldur áfram. Stjórnvöld þykjast hafa lækkað húsnæðisskuldir heimilanna um 200 milljarða nú þegar og halda því fram að ekki sé hægt að gera meira. Þetta stenzt hins vegar ekki skoðun. Fyrir tilstilli stjórnvalda hafa húsnæðisskuldir landsmanna aðeins lækkað um einhverja 30–40 milljarða með ótrúlega flóknum, sértækum aðgerðum. Langmesti hluti 200 milljarðanna er kominn til vegna hæstaréttardóms um ólögmæti gengistryggðra lána.

Ef eitthvað reyndi ríkisvaldið að hindra, að slíkur úrskurður yrði felldur, lyfti a.m.k. ekki litla fingri til að flýta fyrir honum.

Dómurinn hefur hins vegar haft í för með sér, að höfuðstóll gengistryggðra húsnæðisskulda hefur lækkað umtalsvert. Á sama tíma hefur höfuðstóll verðtryggðra skulda hækkað stjórnlaust. Það er ekki mikill jöfnuður í því.

Forsætisráðherra og grátkór lífeyrissjóðanna eru óspör á að segja, að það sé óðs manns æði að fara í almenna 20% skuldaleiðréttingu. Stjórnvöld yrðu talin skaðabótaskyld nema samþykki allra kröfuhafa eða lánveitenda fengist, sem verður að teljast ólíklegt. Verðmiðinn sé um 200 milljarðar miðað við, að húsnæðisskuldirnar séu 1.000 milljarðar. Almenningi er svo talin trú um, að ríkissjóður/skattgreiðendur verði að greiða þennan kostnað, nánast sama dag og leiðrétting eigi sér stað.

Menn virðast ekki átta sig á því, að heildarupphæð húsnæðislána er bókfært virði (væntingar um endurgreiðslu) þeirra miðað við, að þær innheimtist að fullu á 25–40 ára lánstíma. Er það líklegt? Þúsundir heimila ráða illa við að greiða af stökkbreyttum, verðtryggðum húsnæðislánum og því sennilegt, að mikil afföll verði á virði lánasafnsins á næstu árum. Með því að lækka höfuðstól lánanna um 10–15%, gæti innheimtan orðið öruggari, greiðsluviljinn meiri, og lánastofnanir myndu innheimta hærra hlutfall skuldanna en ella. Ef til vill meira en sem nemur höfuðstólslækkuninni.

Hér er varpað fram þeirri hugmynd að breyta lánskjaravísitölunni með einfaldri aðgerð, það er að hreinsa burt allar innlendar skattbreytingar og önnur álíka ósanngjörn áhrif og nota framvirkt veldismeðaltal vísitölunnar til að draga úr miklum sveiflum á henni. Það er ef til vill ekki óeðlilegt, að lánskjör Íslendinga versni við að kaffi hækki í Brazilíu. Það gildir hins vegar ekki, þegar ríkið hækkar virðisaukaskatt skyndilega um 1%, eykur tekjuskatt eða álögur á áfenga drykki og benzín.

Á sama hátt geta sparifjáreigendur ekki ætlazt til að bankainnistæður þeirra hækki af þeim sökum. Tökum dæmi frá stóru nágrannalandi okkar, Þýzkalandi. Þar var virðisaukaskattur hækkaður um heil 3% fyrir nokkrum árum, úr 16 í 19%, til að rétta af fjárhag ríkisins. Við það hækkaði verðlag í Þýzkalandi. Skyldi einhverjum þýzkum sparifjáreiganda hafa látið sér detta í hug að heimta hlutfallslega hækkun á bankainnistæðu sinni af þeim sökum eða lánastofnunum að hækka húsnæðislán?

Hefði vísitala með ofangreindum formerkjum verið innleidd á Íslandi 1995 í stað hrárrar neyzluvísitölu, væri hún núna um 20% lægri en núverandi lánskjaravísitala. Réttlát breyting á vísitölunni þyrfti að vera afturvirk til 1. september 2008, en ef það kynni að skapa ríkinu skaðabótaskyldu er betra en ekki að breyta vísitölunni strax framvirkt til að koma í veg fyrir, að almenningur verði með öllu eignalaus eftir nokkur ár.

Með þessari aðgerð er hægt að lækka húsnæðisskuldirnar framvirkt án skaðabótaskyldu fyrir ríkið. Að sjálfsögðu munu verðtryggðar innistæður lækka að sama skapi sem er eðlilegt. Þetta gæti ef til vill orðið grundvöllur sátta í þjóðfélaginu. Taka verður undir með Jóhönnu, að bezta lausnin er sú að skipta um gjaldmiðil, taka upp evru. Sú lausn mun hins vegar taka allt of langan tíma. Heimilin verða öll komin á hausinn áður, ef ekkert verður aðhafzt nú þegar.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ákvað 1983 að afnema vísitölutengingu launa til að reyna að koma böndum á verðbólguna sem þá grasseraði. Næstu ár á eftir fundu launþegar áþreifanlega fyrir því. Verðtryggður höfuðstóll húsnæðislána jókst hratt í 30% verðbólgu, en launin stóðu nánast í stað. Sigtúnshópurinn svokallaði, en Ögmundur Jónasson, núverandi innanríkisráðherra, var aðaltalsmaður hans, vakti óspart athygli á þessu óréttlæti. Fulltrúar launþega í verkalýðshreyfingunni tóku undir það, andstætt því sem nú gerist. Það leiddi til þess, að lánskjaravísitölunni var breytt með lögum í janúar 1989 og launavísitala reiknuð inn í hana að einum þriðja. Þetta dró verulega úr hækkun verðtryggðra skulda landsmanna á næstu mánuðum og misserum. Tvö fjármálafyrirtæki fóru í mál og kröfðust þess að verðtryggð skuldabréf sem þau áttu skyldu greidd samkvæmt gömlu vísitölunni og báru fyrir sig eignarrétt skv. stjórnarskrá. Viðskiptaráðherra hefði ekki haft vald til að breyta vísitölugrunni verðtryggingar skuldanna. Ríkið vann málin á báðum dómsstigum.

Taldi Hæstiréttur að ríkisvaldið hefði sett verðtryggingu á með lögum og hefði því rétt til þess að breyta vísitölunni með þeim hætti sem var gert. Þess vegna var ekkert aðhafzt, þegar lánskjaravísitölunni var breytt aftur 1995, en á ný voru það helztu forvígismenn launþegasamtaka sem kröfðust þessa. Þeir töldu að vísitalan frá 1989 væri orðin of óhagstæð fyrir launafólk.

Það vekur því nokkra athygli, að 2012 berjast forsvarsmenn launþega hvað harðast gegn því að milda áhrif vísitölunnar. Lánskjaravísitalan, sem nú er í gildi, er óskadraumur fjármagnseigenda. Hún mælir allar breytingar sem geta valdið hækkun hennar þeim í hag, hvort sem einhver rök eða skynsemi eru fyrir því. Hagsmunir skuldara eru hins vegar fyrir borð bornir.




Skoðun

Sjá meira


×