Körfubolti

Nýju Timberwolves-mennirnir fóru fyrir sigri Rússa í bronsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexey Shved átti stórleik hjá Rússum.
Alexey Shved átti stórleik hjá Rússum. Mynd/AFP
Rússar tryggðu sér bronsverðlaunin í körfuboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í London eftir 81-77 sigur á Argentínu í mjög spennandi leik um 3. sætið. Bandaríkjamenn og Spánverjar mætast í úrslitaleiknum seinna í dag.

Þetta eru fyrstu verðlaun Rússa á Ólympíuleikum síðan að þeir hættu að keppa undir nafni Sovétríkjanna en þeir urðu í 9. sæti á leikunum í Peking fyrir fjórum árum. Argentínumenn voru búnir að taka verðlaun á síðustu tveimur leikjum - gull í Aþenu 2004 og brons í Peking 2008.

Manu Ginóbili kom Argentínu í 77-76 þegar 43 sekúndur voru eftir af leiknum en Alexey Shved svaraði með þriggja stiga körfu og tryggði síðan Rússum bronsið með því að stela boltanum og gefa stoðsendingu á Vitaly Fridzon sem skoraði lokakörfu leiksins.

Bakvörðurinn Alexey Shved átti stórleik hjá Rússum en hann skoraði 25 stig og gaf 7 stoðsendingar. Shved er nýbúinn að semja við Minnesota Timberwolves og spilar því í NBA-deildinni í vetur.

Andrei Kirilenko er líka búin að semja við Timberwolves-liðið en hann var með 20 stig og 8 fráköst í þessum leik. Skotbakvörðurinn Vitaly Fridzon var síðan með 19 stig.

Manu Ginóbili var stigahæstur hjá Argentínu með 21 stig, Andrés Nocioni skoraði 16 stig og Carlos Delfino var með 15 stig. Þeir spila allir í NBA-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×