Matthías Máni Erlingsson, sem strauk af Litla-Hrauni síðastliðinn mánudag, virðist hafa dvalið í sumarbústað í Árnesi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu leikur grunur á að Matthías Máni hafi stolið riffli þaðan og öðrum munum.
Matthías var vopnaður riffli, hnífum og öxi þegar hann gaf sig fram við ábúendur á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal snemma í morgun.
Rannsókn á ferðum Matthíasar Mána stendur enn yfir en grunur leikur á að hann hafi dvalið í bústaðnum um stund. Rannsókn á flótta hans og refsismáls er lýtur að meintum hótunum hans í garð fólks sem honum tengist heldur áfram en ekki er að vænta frekari frétta af því fyrr en eftir áramót, að sögn lögreglu.
Þá vill lögreglan á Selfossi og lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu þakka þeim sem hönd lögðu á plóg við leitina undanfarna daga.