Lífið

Leikur í nýjum íslenskum gamanþáttum

Fyndnasti maður Íslands, Daníel Geir Moritz, leikur í nýjum íslenskum gamanþáttum sem verða sýndir í haust. „Þetta er ferli sem er að fara af stað hjá ákveðnum grínhópi sem ég tilheyri ekki," segir hann en er annars þögull sem gröfin um þættina.

Hálft ár er liðið síðan Daníel Geir var valinn fyndnasti maður Íslands og síðan þá hefur hann haft í nógu að snúast í uppistandi sínu. „Þessi vetur var alveg frábær og frá miðjum apríl og fram í miðjan maí var mikil vertíð."

Grínmyndbönd hans á Facebook hafa einnig vakið athygli, auk þess sem hann hefur reynt fyrir sér sem útvarpsmaður á Rás 2. Hann hefur mikinn áhuga á að starfa meira á þeim vettvangi í framtíðinni.

Meðfram gríninu stundar Daníel Geir meistaranám í ritlist og er þessa dagana að semja dramatískt gamanleikrit. Aðalpersónan er maður á elliheimili sem fær barnabarn í heimsókn sem hann þolir ekki. „Það væri gaman að setja þetta upp einhvern tímann. Ég held að þetta sé mjög skemmtilegt, þótt ég segi sjálfur frá."

Daníel byrjaði að vinna á auglýsingastofu í janúar en entist ekki lengi þar. „Ég er að kappkosta við hvað ég kemst lengi upp með að fá mér ekki fasta vinnu." Í sumar heldur hann fyrirlestra fyrir unglinga í vinnuskólum.

„Ég er menntaður kennari, sem margir vita kannski ekki. Ég er að fara yfir hvað stendur vinnuskólakrökkum til boða og að þeir þurfi ekkert að óttast draumana sína." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.