Körfubolti

Falur: Þetta hljómar mjög vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflavíkurstelpurnar skemmtu sér vel í bikarafhendingunni í gær.
Keflavíkurstelpurnar skemmtu sér vel í bikarafhendingunni í gær. Mynd/ÓskarÓ
Falur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, gerði liðið að deildarmeisturum á sínu fyrsta ári með liðið en Keflavík tók við bikarnum eftir sannfærandi sigur á KR í DHL-höllinni í gær. Falur var aðstoðarþjálfari þegar Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrra en þá endaði liði í 2. sæti í deildinni.

„Það hljómar mjög vel að vera með heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina. Ég er búinn að leggja áherslu á það allan tímann að enda í efsta sæti því það skiptir okkur gríðarlega miklu máli sérstaklega vegna þess hvernig við erum búin að vera að spila. Við erum búin að tapa einum leik á heimavelli í vetur og það var í síðasta leik þegar við spiluðum mjög illa á móti Snæfelli," sagði Falur.

„Okkur líður mjög vel á heimavelli og þetta er mjög dýrmætt fyrir okkur að ná þessum deildarmeistaratitli," segir Falur. Keflavík tapaði 3 af síðustu 5 leikjum sínum þar af tveimur þeirra stórt. Þjálfarinn hefur samt ekki áhyggjur.

„Ég hef ekki lengur áhyggjur. Stelpurnar eru búnar að vera spila mjög vel á æfingum frá því í síðasta leik og þessi leikur á móti KR var aldrei spurning. KR var með vængbrotið lið en ég var ánægður með hvernig mínar náðu að halda haus allan leikinn," sagði Falur.

Framundan er spennandi úrslitakeppni enda hefur verið mikið um óvænt úrslit í leikjum Iceland Express deildar kvenna í vetur.

„Úrslitakeppni á að vera erfið og ég hef sagt það áður að þá á enginn þessa bikara. Það er bara það lið sem vill taka þá sem tekur þá. Það eru fjögur sterk lið í úrslitakeppninni í kvennaboltanum í ár. Næsta verkefni er að spila við Hauka og nú er markmiðið að komast í gegnum þær. Við tökum samt bara einn leik fyrir í einu," sagði Falur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×