Innlent

Algjör óvissa hvernig eigi að túlka svör

Karen Kjartansdóttir skrifar
Algjör óvissa virðist ríkja um hvernig túlka á svör í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga þótt nú sé aðeins tæp vika í kosningarnar.

Næsta laugardag er þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðinni efst kostur á gefst kostur á segja til um hvort þeir vilji nýja stjórnarskrá eða halda þeirri gömlu. En er þetta svona einfalt? Svona hljómar til dæmis fyrsta spurningin: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Hvað þýðir að svara fyrstu spurningunni játandi og hvað þýðir að svara neitandi?

Mikið hefur verið karpað um málið en rifjum upp nýjustu ummælin. Þovaldur Gylfason, hagfræðiprófessor og stjórnlagaráðsfulltrúi sagði í Kastljósi á þriðjudag að verði fyrstu spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni svarað játandi af meirihluta kjósenda þá sé hún bindandi.

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur sem einnig átti sæti í stjórnlagaráði, skrifaði grein um ummæli Þorvalds sem birtust í Fréttablaðinu á föstudag sem bar heitið, Það verður ekkert lagað seinna. Þar segir Pawel meðal annars:

„Þorvaldur Gylfason hélt því fram í Kastljósinu á þriðjudag að verði fyrstu spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni um drög stjórnlagaráðs svarað játandi af meirihluta kjósenda þá geti Alþingi ekki annað en samþykkt drögin óbreytt sem nýja stjórnarskrá. Þetta er auðvitað ekki þannig. En það er samt ansi líklegt að þetta verði þannig."

Því næst fer hann yfir langt og strangt ferli sem býður Alþingis og rökstyður skoðun sína að verði þetta samþykkt verði ekki hægt að breyta drögunum. En þeirri grein svarar svo Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórmálafræðingur sem einnig sat í stjórnlagaráði. Grein hans heitir „Má laga seinna?" og í henni segir meðal annars:

„Vissulega getur það virkað ruglingslegt að áform um breytingar séu ekki ljós fyrir kosningarnar."

Síðar í greininni segir Eiríkur:

„Vitaskuld færi betur á því að allt lægi þetta miklu ljósar fyrir en því miður verður ekki á allt kosið í þeim efnum. Við í fyrrum Stjórnlagaráði ráðum þessu ekki. Eftir stendur að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla er mesta lýðræðisveisla sem Íslendingum hefur nokkurn tíman verið boðið í. Fráleitt væri að hafna því boði bara af því að maður vildi heldur örlítið önnur veisluföng.

Ég er sannfærður um að þeim sem telja að frumvarp okkar Pawels og hinna í ráðinu sé viðunandi, en að ýmsa agnúa megi sníða af í meðförum Alþingis, sé óhætt að gjalda málinu jáyrði í atkvæðagreiðslunni þann 20. október."

Þorsteinn Pálsson, lögfræðingur og fyrrverandi forsætisráðherra, veit ekki heldur heldur hvað þetta þýðir en í grein sinni í Fréttablaðinu um helgina sagði hann að: „venjulega þegar gengið er til atkvæða viti menn hvað gerist ef meiri hlutinn segi já. En ef einhver veit þetta þá er það Valgerður Bjarnadóttir, en hún er formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis en sú nefnd fjallar um stjórnarskrármál. Ef meirihluti kjósenda svarar fyrstu spurningunni játandi hvað gerist þá? Þá verða tillögur stjórnlagaráðsins lagðar til grundvallar nýju frumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi, það er að segja efnislega. Kannski ekki alveg hvert orð en efnislega."

En ef meirihluti kjósenda svarar neitandi?

„Þá er samstaða sem stjórnlagaráð náði fyrir bý og alveg ljóst að þingið hefur þá frjálsari hendur," segir Valgerður.

En hvernig sem þetta fer þá hefur Björg Thorarensen lagaprófessor líklega hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði í grein í Fréttablaðinu um helgina að hún óttaðist að á komandi vetri yrði miklum tíma varið til þess að deila um hvernig eigi að túlka niðurstöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×