Innlent

Forystuhlutverk í skugga efasemda

Þýskaland og ESB Simon Bulmer er sérfræðingur í málefnum Þýskalands og Evrópusambandsins. Í fyrirlestri sínum í gær sagði hann Þýskaland gegna forystuhlutverki í aðgerðum ESB, þrátt fyrir viðhorfsbreytingu meðal almennings. Fréttablaðið/Pjetur
Þýskaland og ESB Simon Bulmer er sérfræðingur í málefnum Þýskalands og Evrópusambandsins. Í fyrirlestri sínum í gær sagði hann Þýskaland gegna forystuhlutverki í aðgerðum ESB, þrátt fyrir viðhorfsbreytingu meðal almennings. Fréttablaðið/Pjetur
Þróun almenningsviðhorfs í Þýskalandi er með þeim hætti að nánari samvinna og samruni Evrópuríkja þykir þar ekki lengur jafnsjálfsagt mál og verið hefur frá lokum seinna stríðs. Þetta kom fram í fyrirlestri Simons Bulmer, prófessors í Evrópufræðum við Sheffield-háskóla, í erindi hans á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í gær.

Þessa þróun sagði Bulmer meðal annars hljótast af kynslóðaskiptum, stækkun ESB og yfirstandandi efnahagsvá evrusvæðisins. Það hefur til dæmis breytt pólitískri orðræðu þar í landi og eru efasemdarraddir því farnar að heyrast í auknum mæli. Sérhagsmunir landsins eru þar með farnir að vega þyngra en hugsjónir.

Þýskaland hefur jafnan staðið í fararbroddi ESB ásamt Frakklandi, en sú staða hefur breyst nokkuð síðustu ár, sagði Bulmer.

Í samtali við Fréttablaðið sagði hann að Þýskaland væri í raun með frumkvæði í aðgerðunum gegn kreppunni á evrusvæðinu, en þó væri mikilvægt að hafa Frakkland með í forystu.

„Ég held að Angela Merkel og Nicolas Sarkozy séu meðvitað að reyna að koma sameinuð fram í þessu máli. Sé Þýskaland eitt í forgrunni aðgerðanna er hætt við að það rýri gildi þeirra. Sameinuð forysta veitir aðgerðunum því frekara lögmæti."- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×