Enski boltinn

Petit: Wenger er ennþá rétti maðurinn fyrir Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Petit og Arsene Wenger.
Emmanuel Petit og Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Emmanuel Petit, fyrrum leikmaður Arsenal, er sannfærður um að það yrðu stór mistök hjá Arsenal að láta Arsene Wenger fara frá félaginu. Það hefur lítið gengið hjá Arsenal að undanförnu og sterkur orðrómur er um það að franski stjórinn verði ekki áfram með Arsenal-liðið eftir þetta tímabil.

Arsenal féll út úr enska bikarnum um helgina og er nánast úr leik í Meistaradeildinni eftir 0-4 tap í fyrri leiknum á móti AC Milan í 16 liða úrslitum. Arsenal er síðan í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er nú 17 stigum á eftir toppliði Manchester City.

„Ef Arsene yfirgefur klúbbinn þá þurfa þeir að finna alvöru stjóra og það myndi bíða hans mjög erfitt starf," sagði Emmanuel Petit í viðtali við BBC. Petit kom til Arsenal árið 1997 og vann tvöfalt á sínu fyrsta tímabili með félaginu.

„Ég held að Arsene sé ennþá rétti maðurinn fyrir Arsenal. Það þarf bara breyta nokkrum hlutum varðandi aðkomu félagsins að félagsskiptamarkaðnum sem og að breyta aðeins félagspólitíkinni til þess að geta sett saman samkeppnishæfara lið," segir Petit en hann hrósar engu að síður Wenger fyrir að setja traust sitt á unga leikmenn.

„Liðið þarf fleiri reynslubolta og sterkari karaktera. Hæfileikarnir eru til staðar en það þarf fleiri mentára í liðið," sagði Petit sem lék með Arsenal frá 1997 til 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×