Innlent

Fluguveiði og sleppingar skila sér vel

Gísli Sigurðsson með glæsilegan feng. Stórtæk efnistaka úr ánni hefur verið nefnd sem skýring þess að bleikjustofninn hefur látið undan síga.mynd/stefán jón hafstein
Gísli Sigurðsson með glæsilegan feng. Stórtæk efnistaka úr ánni hefur verið nefnd sem skýring þess að bleikjustofninn hefur látið undan síga.mynd/stefán jón hafstein
Vísbendingar eru um að breytt veiðifyrirkomulag í Eyjafjarðará hafi skilað betri seiðabúskap í Eyjafjarðará, einni bestu bleikjuveiðiá landsins.

Nýverið sendi Veiðimálastofnun frá sér skýrslu með niðurstöðum úr seiðamælingum í ánni haustið 2011. Þéttleiki seiðanna og ástand þeirra var metið á vatnasvæðinu. Líkt og í flestum sjóbleikjuám á Íslandi hefur dregið úr veiði síðastliðinn áratug og hefur sú þróun verið sett í samband við hlýnandi veðurfar. Meðalveiðin í ánni á árunum frá 1986 til 2010 var 2.132 bleikjur.

Til að bregðast við minnkandi veiði í Eyjafjarðará hafa frá árinu 2008 verið takmarkanir á veiðar á annað agn en flugu og veiðimönnum gert að sleppa mestu af þeirri bleikju sem þeir veiða. Vísbendingar eru um að þær ráðstafanir séu að bera árangur.

Í skýrslunni kemur fram að heildarþéttleiki flestra árganga bleikjuseiða hafi ekki áður mælst jafn mikill og haustið 2011. Ekki er um stórfelldar breytingar að ræða en þó virðist sem nýliðun seiða í ánni hafi náð sér á strik síðustu ár og sé fremur á uppleið.

Augljóst er að bleikjustofninn á vatnasvæðinu er fáliðaður og einhver búsvæði á vatnasvæðinu vannýtt. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×