Innlent

Þingmenn gagnrýna þögn Ólafs Ragnars

Síðasta ár Ólafs Ragnars? Frestur til að gefa kost á sér til forseta í næstu kosningum rennur út í lok maí.Fréttablaðið/Valli
Síðasta ár Ólafs Ragnars? Frestur til að gefa kost á sér til forseta í næstu kosningum rennur út í lok maí.Fréttablaðið/Valli
Forseti Íslands verður að fara að gefa upp hvort hann ætli að gefa kost á sér til endurkjörs í sumar eða ekki. Þetta er mat Kristján Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og Róberts Marshall, þingmanns Samfylkingar. Framboðsfrestur rennur út þann 26. maí næstkomandi.

Fjölmiðlar hafa ítrekað reynt að ná sambandi við Ólaf Ragnar að undanförnu, en án árangurs. Örnólfur Thorsson forsetaritari segir fyrirspurnir fjölmiðla varðandi mögulegt endurkjör forseta ekki fara í gegn um skrifstofuna.

„Það eru margir miðlar sem hafa farið fram á viðtöl en ég veit ekki hvort hann hafi hugsað sér að tala við einn miðil. Hann mundi þá frekar tala við marga í einu,“ segir Örnólfur. Ólafur Ragnar vildi ekki koma í viðtal við Fréttablaðið.

Kristján sagði í Silfri Egils í gær að það sé vart boðlegt lengur að bíða þess að Ólafur Ragnar Grímsson forseti taki af allan vafa um hvort hann gefi kost á sér í forsetakosningum í sumar eða ekki.

Róbert segir forsetann ókurteisan að vera ekki búinn að skýra hvort hann muni sækjast eftir forsetastólnum áfram, einum og hálfum mánuði eftir nýársávarp sitt.

Samkvæmt nýlegri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö vill rúmlega helmingur landsmanna að Ólafur sækist eftir endurkjöri. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×