Innlent

Margir kannað stöðu barnasparnaðar

Björn Berg Gunnarsson
Björn Berg Gunnarsson
 „Við höfum fengið mikil og jákvæð viðbrögð við þessari frétt. Fjöldi fólks hefur haft samband og spjallað við okkur um þetta í kjölfarið,“ segir Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka.

Þar vísar Björn til umfjöllunar sem birtist í Fréttablaðinu í byrjun febrúar þar sem fjallað var um valmöguleika fólks þegar kemur að sparnaði barna. Í fréttinni benti Björn á að skynsamlegra gæti verið að geyma sparnað barna í verðbréfasjóðum, til dæmis ríkisskuldabréfasjóðum, fremur en á bankabók. Þannig mætti auka vaxtavexti og minnka greiddan fjármagnstekjuskatt.

Björn segist ekki vera í aðstöðu til að sjá hvort margir hafi beinlínis flutt sparnað sinn en segir þó ljóst að margir hafi farið að velta þessum hlutum fyrir sér í kjölfarið.

„Sumir vildu spjalla við okkur um skynsamlegustu sparnaðarleiðirnar. Aðrir vildu kanna hvar sparnaður barna þeirra væri geymdur og enn aðrir vildu ganga úr skugga um að hann væri alveg örugglega í ríkisskuldabréfasjóðum,“ segir Björn.

Hann segir mikilvægt að skoða vel þá valmöguleika sem séu til staðar þegar sparað sé til langs tíma. Lítill vaxtamunur og áhrif skatta geti þá breytt miklu.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×