Körfubolti

Ólafur: Bilaðist þegar ég sá löppina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, meiddist illa á ökkla í leik sinna manna gegn Stjörnunni í gær. Þjálfari Stjörnunnar kom honum fyrstur til hjálpar.

Eins og áhorfendur sáu í gær afmyndaðist ökklinn nokkuð og því er rétt að vara sterklega við þeim myndum sem eru í upphafi myndskeiðsins hér fyrir ofan.

Ökklinn fór úr lið og bein brotnaði einnig í fótinum. Ólafur þarf að vera i gifsi í sex vikur, kemur í ljós eftir það hvort hann þurfi að fara í aðgerð efti það. „Tímabilið er allavega búið hjá mér," sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég fann fyrir sársauka en doða líka. Ég beið eftir að löppin færi aftur í rétta stöðu en þegar ég sá hana svo þá bilaðist ég. Hún var eins og L í laginu," sagði Ólafur.

„Það sem hjálpaði mér örugglega og varð til þess að það leið ekki yfir mig er að Teitur [Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar] kom strax inn á völlinn, lagðist á mig og passaði að ég sæi ekki löppina. Svo komu fleiri sem héldu í löppina og héldu mér föstum - sem skipti miklu máli."

Þegar Ólafur var borinn af velli klappaði hann höndunum kröftuglega saman og sendi sínum mönnum baráttukveðjur. „Ég vildi bara að þeir myndu vinna leikinn. Ég vissi að ég væri búinn," sagði Ólafur.

Hann segir að það verði svekkjandi að þurfa að sitja og horfa á þegar hans menn í Grindavík mæta Þór í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. „Það kemur maður í manns stað og ég treysti strákunum til þess að klára þetta. Ég mun sitja á bekknum með þeim og veita þeim andlegan stuðning."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×