Veiði

Sjávarfossinn gaf yfir 200 laxa

Sjávarfossinn gaf langflesta laxa í sumar.
Sjávarfossinn gaf langflesta laxa í sumar. Mynd/Svavar

Í ársskýrslu SVFR fyrir sumarið 2012 er birt afar greinargóð skýrsla árnefndar Elliðaánna sem Ólafur E. Jóhannsson, formaður nefndarinnar, ritar. Er vel þess virði að týna eitt og annað til sem þar kemur fram.

Fyrst af öllu rifjar Ólafur það upp að veiðin byrjaði ævintýralega vel, og reyndar muna menn ekki eftir því að Elliðaárnar hafi opnað með jafn miklum glæsibrag. Alls kom 31 lax á land fyrsta daginn, 16 voru voru drepnir en 15 var sleppt.

Menn þekkja hvernig veiðin þróaðist en af einstökum veiðistöðum gaf Sjávarfoss flesta laxana í sumar, eða 205 talsins. Næst komu Hundasteinar með 73 laxa og Hraunið með 68 laxa. Kerlingaflúðir gáfu svo 53 laxa og Teljarastrengur 44, en skemmst er að minnast þess að fyrstu veiðidagana í sumar var laxi mokað upp í Teljarastreng sem var búnkaður af laxi. Undirritaður verður að viðurkenna að hann er hugsi yfir laxamagninu sem er dregið upp úr Sjávarfossi, en það er önnur saga.

Ólafur greinir frá því að um teljarann við Rafstöð gekk 1.031 lax sem er meira en 900 löxum færra en sumarið 2011. Laxar veiddir neðan teljara voru 344 talsins. Fyrir ofan teljara veiddust 486 laxar, en 202 löxum var sleppt. „Heildargangan virðist skv. þessu hafa numið 1.375 löxum og af þeim voru um 630 drepnir. Veiðihlutfall hefur því að lágmarki verið um 46% sem er mun hærra en á síðasta ári og umfram æskilegt álag. Líklegt er að í ljósi þessa verði áfram farið með gát við veiðistjórnun í Elliðaánum, þar sem einvörðungu er treyst á afrakstur náttúrulegs klaks í ánum eins og fyrr er getið."

Hér er vísað til þessa sem fram kemur í skýrslunni og er áhyggjuefni: „Engum seiðum hefur verið sleppt í Elliðaárnar síðustu árin og virðist útséð um að unnt verði að sleppa seiðum af stofni árinnar í þær aftur þar sem nýrnaveiki virðist orðin landlæg í vatnakerfinu. Ástæða er til að hafa áhyggjur af afkomu fiskistofna í Elliðaánum og Elliðavatni vegna þess. Elliðaárnar eru því upp á sjálfar sig komnar hvað varðar framleiðslu laxaseiða og illmögulegt að óbreyttu að styrkja laxastofninn með seiðasleppingum af Elliðaárstofni."

SVFR hefur mælst til þess að veiðimenn gæti hófs í veiðum og sleppi sem flestum löxum. Veiðimenn hafa tekið þessu með skilningi, segir Ólafur. „202 löxum sleppt sl. sumar sem er nokkru færra en 2010, en þá var 258 löxum ýtt aftur út í strauminn. Alls veiddust 830 laxar í Elliðaánum í sumar var því ríflega 24% veiddra laxa sleppt."

Ólafur víkur að breyttri svæðaskiptingu sem tekin var upp fyrir sumarið. Ljóst er af skrifum hans að þessi breyting náði ekki tilætluðum árangri. „Nokkuð var um misskilning vegna breyttrar svæðaskiptingar sem ákveðin hafði verið af stjórn SVFR sl. vetur. Breytingin var sú að Árbæjarhylur var tekin út af frjálsa svæðinu og settur undir svæði 2. Svæði 2 náði því frá hitaveitustokki og upp í Ullarfoss. Síðan tók við alllangt frjálst svæði, allt þar til kom að Árbæjarhyl sem ekki var lengur frjálst, en tilheyrði svæði 2. Loks var stubburinn á milli Árbæjarhyls og Hundasteina einnig frjáls. Eins og vænta mátti og Elliðaárnefnd hafði bent á, olli þetta misskilningi og vandræðum hjá sumum veiðimönnum, ekki síst vegna þess að talsvert ferðalag er frá neðri hluta svæðis 2 upp í Árbæjarhyl. Fullyrða má að þessi breyting hafi mælst illa fyrir og er þess vænst að stjórn SVFR taki málið til athugunar í ljósi fenginnar reynslu."

Tilhögun veiða var óhefðbundin að þessu sinni að því leyti að veiðitíminn var framlengdur í tilraunaskyni til 14. september. Tilhögun septemberveiðanna var þannig að aðeins var leyft að veiða ofan Árbæjarstíflu, aðeins á flugu og öllum fiskum sleppt. „Septemberleyfin seldust ekki öll en þeir sem komu til veiða voru sáttir. Alls veiddust 63 laxar þessa daga og hífðu veiðina úr 767 löxum í ágústlok upp í 830 laxa við lok veiðitíma," skrifar Ólafur.






×