Viðbragðshópur Seðlabankans taldi mun meiri undirliggjandi kerfislega áhættu í bankakerfinu vegna samþjöppunar á eignarhaldi hér á landi en í Svíþjóð. Þetta kom fram í vitnisburði Sylvíu Kristínar Ólafsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni viðbúnaðardeildar hjá Seðlabankanum, í Landsdómi í gær.
Hún sagði að stuðst hafi verið við kerfi sænska Seðlabankans til að meta gæði útlána, en sér hafi þótt vera skekkja í því vegna samþjöppunar á eignarhaldi íslensku bankanna.
Sylvía segir að unnið hafi verið að því að gera lausafjárpróf og álagspróf, og vinna við slíkt hafi stigmagnast þegar liðið hafi á árið 2008. Innan Seðlabankans hafi einnig verið unnið að því að draga upp sviðsmyndir af ýmiss konar fjármálaáföllum.
Hún þrýsti á að samráðshópur um fjármálastöðugleika, sem fulltrúar Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og þriggja ráðuneyta skipuðu, gerði einhvers konar viðbragðsáætlun. Hún sagði að í ljós hafi komið að hópurinn hafi ekki haft heimildir til að gera slíka áætlun.
Þegar til kastanna kom var starfsfólk Seðlabankans vel undirbúið og vann þrekvirki í bankahruninu, ekki síst vegna greiðslumiðlunar, sagði Sylvía.
Innlent