Til stóð að hefja innlánasöfnun á Icesave-reikningum víðar en í Bretlandi og Hollandi eftir því sem tíminn leið. Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, fullyrti þetta þegar hann gaf skýrslu fyrir Landsdómi í dag.
Hann sagði að innlánasöfnunin hefði hafist þegar matsfyrirtæki skiluðu af sér áliti þar sem framkom að landsbankinn væri ekki með nógu mikið af innlánum. „Við ákváðum að fara út í það að auka þessi innlán," sagði Björgólfur.
Landsbankinn hefði átt banka í Bretlandi sem hét Heritable banki og eðlilegt hafi þótt að byrja þar. „Við vorum með heildstætt plan um að byrja í Bretlandi og síðan í Hollandi og svo átti að fara víðar," sagði Björgólfur. Þetta hafi átt að gera í samstarfi við Fjármálaeftirlit á hverjum stað.
Skýrslutöku yfir Björgólfi lauk um klukkan 23 mínútur í sex nú síðdegis og hefur aðalmeðferð verið frestað til klukkan níu á morgun. Morgundagurinn hefst á því að Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, ber vitni.
Innlent