Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra krefst þess að fá að sjá umfjöllun Nýs Lífs um hann sem birtist í nýjasta tölublaðinu sem kemur út á morgun. Hann segir ennfremur skýlausa kröfu að hann fái að svara fyrir sig í sama blaði. Ella íhugi hann að sækjast eftir lögbanni á dreifingu þess. Þetta staðfestir Þóra Tómasdóttir ritstjóri tímaritsins í samtali við fréttastofu en hún hefur ekki svarað kröfu Jóns Baldvins.
Umfjöllun blaðsins snýst um bréf sem Jón Baldvin sendi ungri stúlku fyrir nokkrum árum. Á forsíðu Nýs Lífs segir um málið: „Kynferðisleg bréf sem Jón Baldvin skrifaði unglingsstúlku"
Þóra vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. „Allt sem við höfum um þetta að segja birtist í blaðinu á morgun,“ segir hún.
Ekki náðist í Jón Baldvin við vinnslu fréttarinnar.
