Körfubolti

NBA í nótt: Pierce tók fram úr Bird

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pierce í leiknum í nótt.
Paul Pierce í leiknum í nótt. Mynd/AP
Paul Pierce er orðinn næst stigahæsti leikmaður Boston Celtics frá upphafi en hann skoraði fimmtán stig þegar að liðið vann Charlotte Bobcats, 94-84, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Pierce tók fram úr sjálfum Larry Bird sem skoraði alls 21.791 stig fyrir Boston á ferlinum. Pierce var nálægt því að ná þrefaldri tvennu í leiknum en hann gaf níu stoðsendingar og tók átta fráköst.

John Havlicek er stigahæsti leikmaður Celtic frá upphafi með alls 26.395 stig.

Rajon Rondo var með fjórtán stoðsendingar og tíu stig, Kevin Garnett 22 stig og Ray Allen sautján stig. Reggie Williams skoraði 21 stigg fyrir Charlotte sem tapaði sínum tólfta leik í röð.

LeBron James skoraði 24 stig fyrir Miami gegn sínu gamla liði, Cleveland, í nótt. Miami vann leikinn nokkuð þægilega, 107-91.

Steve Nash tryggði Phoenix sigur gegn Milwaukee, 107-105, með því að setja niður sniðskot þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum.

Indiana vann góðan sigur á Utah, 104-99, þar sem Darren Collison var með 25 stig og Danny Granger sextán. Paul Millsap skoraði átján stig fyrir Utah.

Þá skoraði Kevin Durant 33 stig í sigri Oklahoma City gegn Golden State, 119-116. Hann tók einnig tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Indiana - Utah 104-99

Boston - Charlotte 94-84

Miami - Cleveland 107-91

Milwaukee - Phoenix 105-107

Minnesota - Sacramento 86-84

Oklahoma City - Golden State 116-119

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×