Gagnrýni

Skáldsaga um glæpi

Jón Yngvi Jóhannsson skrifar
Ólafur Gunnarson
Ólafur Gunnarson
Málarinn

Ólafur Gunnarsson

JPV-forlag



Ólafur Gunnarsson hefur aldrei skrifað skáldsögur að gamni sínu. Bestu sögur hans – og sú nýjasta er ein þeirra – eru stórbrotnir harmleikir sem segja af persónum sem rata í mikla ógæfu vegna eigin bresta og kalla harm og eyðileggingu yfir sjálfar sig og þá sem þær elska.

Skáldsagan Málarinn minnir um margt á fyrri skáldsögur Ólafs, sögur eins og Tröllakirkju og Vetrarferðina. Persónur sögunnar eru stórar í sniðum, tilfinningar þeirra ofsafengnar og þær fá útrás í átökum og jafnvel ofbeldi.

Aðalpersóna Málarans er listmálarinn Davíð Þorvaldsson, listamaður sem hefur notið mikillar velgengni og selt málverk í stórum stíl en hefur þurft að gefa eftir ýtrustu kröfur til sjálfs sín um listrænan metnað og trúnað við sjálfan sig. Afleiðingin er sú að hann nýtur vinsælda meðal almennings en gagnrýnendur og kollegar líta niður á hann.

Davíð Þorvaldsson er náskyldur persónum sem Ólafur hefur skapað áður, gamaldags karlmaður, sterkur á ytra borði en ber í sér bresti og í fortíð hans eru atburðir sem hafa skilið eftir sig sár. Í upphafi sögu ákveður Davíð að ná sér niðri á liststofnuninni, sérfræðingum og öðrum listamönnum með því að mála og koma í umferð fölsuðu verki eftir Jóhannes Kjarval. Í kjölfarið kemst hann í kynni við stórlaxa í íslensku viðskiptalífi og atburðarásin sem þá fer af stað fléttast saman við Hafskipsmálið og margs konar undirferli í íslensku viðskiptalífi um miðjan níunda áratuginn.

Málarinn er skáldsaga um margvíslega glæpi, svik, falsanir og morð, og hún er á köflum óhugnanlega spennandi, persónurnar eru þannig skapaðar að lesanda getur vart staðið á sama um örlög þeirra – samt er hún eins langt frá því að vera hefðbundin glæpasaga og hugsast getur. Spennan liggur ekki í rannsókn glæpamáls eða afhjúpun glæpamanna heldur glímu persónanna við sjálfar sig, glímu sem er siðferðileg og tilvistarleg umfram allt.

Frásagnarháttur sögunnar og stíll einkennast af fádæma öryggi, raunar svo miklu að sögumaður getur lengi framan af sögu blekkt lesandann á áhrifamikinn hátt, en það væri ósanngjarnt að rekja þær blekkingar hér og ræna væntanlega lesendur þeirri blendnu ánægju sem uppgötvun hennar getur haft í för með sér, látum nægja að fátt er eins og sýnist í þessari sögu og maður ætti að trúa sögumönnum skáldsagna varlega.

Það er ekkert leyndarmál að sá sem hér skrifar hefur lengi verið mikill aðdáandi verka Ólafs Gunnarssonar. Einhverjum kann að finnast Málarinn nokkuð stórkarlaleg, bæði vegna þess að hér eru tilfinningar og persónur blásnar upp í yfirstærð og ekki síður vegna þess að eins og fleiri bækur Ólafs er hún öðrum þræði rannsókn á karlmennsku eins og hún birtist í íslensku samfélagi eftirstríðsáranna og því skipbroti sem hún beið oft og tíðum. Aðferðin og umfjöllunarefnið er kannski ekki allra, en fyrir þá sem kunna að meta er Málarinn sannkölluð veisla.

Niðurstaða: Málarinn er frábært dæmi um sagnalist Ólafs eins og hún gerist best






Fleiri fréttir

Sjá meira


×