Körfubolti

Áströlsku körfuboltakonurnar nældu í verðlaun á fimmtu leikunum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristi Harrower og Lauren Jackson fagna í leikslok en þær voru að vinna sín fjórðu Ólympíuverðlaun.
Kristi Harrower og Lauren Jackson fagna í leikslok en þær voru að vinna sín fjórðu Ólympíuverðlaun. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ástralía tryggði sér bronsið í körfuboltakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í London í kvöld með því að vinna níu stiga sigur á Rússlandi, 83-74, í leiknum um þriðja sætið. Ástralía var búið að vinna silfur á síðustu þremur leikum og vann brons í Atlanta 1996.

Miðherjinn Lauren Jackson var atkvæðamest með 25 stig og 11 fráköst en hún hefur verið með ástralska landsliðinu á síðustu fjórum leikum og var því að vinna sín fjórðu Ólympíuverðlaun. Kristi Harrower var einnig að vinna sín fjórðu Ólympíuverðlaun en hún var næststigahæst með 21 stig.

Ástralska liðið var átta stigum yfir í hálfleik, 38-30, og sigurinn var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum. Becky Hammon var atkvæðamest hjá Rússum með 19 stig og 4 stoðsendingar en þær Evgeniya Belyakova og Anna Petrakova skoruðu báðar 10 stig.

Rússar voru búnir að vinna bronsið í kvennakörfunni á síðustu tveimur Ólympíuleikum en frönsku stelpurnar komust alla leið í úrslitin á þessum leikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×