Innlent

Gagnrýnir skipulag Hörpu

Mynd/Vilhelm
Taka hefði átt upp skipulag Hörpu miklu fyrr að mati Þórunnar Sigurðardóttur sem skipuð var stjórnarformaður Ago, rekstrarfélags Hörpu, af menntamálaráðherra vorið 2009. Þórunn segir að breyta hefði þurft öllu uppleggi Hörpu, ekki síst hvað fjölda félaga varðar.

„Þetta er tekið beint áfram eins og þetta var fyrir hrun. Ég hefði viljað láta taka þetta allt saman upp og auðvitað hefur það verið gert að einhverju leyti, en það hefði þurft að gera miklu meira. Ég varaði við því að farið væri út svona rekstrarmódel, sem hvergi er brúkað annars staðar í heiminum í sambærilegum húsum."

Þórunn segir að málið snúist ekki aðeins um fjölda stjórna, heldur grunnhugmyndafræðina sem hefði þurft að endurskoða. „Ég hef gagnrýnt þá hugmyndafræði að hafa þetta í svona mörgum félögum, en einnig allt skipulagið. Menn héldu að það væri hægt að græða endalaust á listviðburðum og ráðstefnum. Við sem höfum verið í þessum bransa vitum að svo er ekki."

Þórunn hefur bókað þá skoðun sína á stjórnarfundum frá því að hún tók við, en rekstri Hörpu er enn skipt upp í mörg félög. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í Fréttablaðinu á fimmtudag að ákveðið hefði verið að fá reynslu á reksturinn áður en farið yrði í gagngerar breytingar.

Þórunn tekur undir að ákveðið hafi verið að láta reyna á fyrirkomulagið. „Þetta var spurning um að láta á þetta reyna, ef svo má segja. Útkoman er eins og hún er og það hefði þurft að taka þetta upp miklu fyrr."

Áætlaður taprekstur Hörpu árið 2012 er 407 milljónir. Þórunn segir stjórnarmenn bera mikla ábyrgð og útilokar ekki afsögn. „Það fer svolítið eftir því hvernig spilast úr þessu núna."- kóp / sjá síðu 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×