Körfubolti

Bandarísku körfuboltakonurnar unnu úrslitaleikinn með 36 stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird er fyrirliði bandaríska liðsins.
Sue Bird er fyrirliði bandaríska liðsins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bandaríkin er Ólympíumeistari kvenna í körfubolta á fimmtu Ólympíuleikunum í röð eftir 36 stiga sigur á Frakklandi, 86-50, í úrslitaleiknum í kvöld. Bandaríska liðið var algjört yfirburðarlið á mótinu og vann alla átta leiki sína sannfærandi.

Bandaríska kvennaliðið hefur unnið þessi gullverðlaun frá og með Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 en þær bandarísku urðu einnig Ólympíumeistarar 1984 og 1988 og hafa því unnið sjö gull í kvennakörfubolta á Ólympíuleikum.

Candace Parker var með 21 stig og 11 fráköst í úrslitaleiknum, Sue Bird skoraði 11 stig og Diana Taurasi var með 9 stig og 6 stoðsendingar. Sandrine Gruda og Edwige Lawson-Wade skoruðu báðar 12 stig og voru stigahæstar hjá franska liðinu.

Frakkar héldu sér inn í leiknum í fyrsta leikhlutann sem Bandaríkin vann 20-15 en bandaríska liðið var síðan komið 12 stigum yfir í hálfleik, 37-25. Þær bandarísku skiptu síðan um gír í seinni hálfleiknum og keyrðu yfir franska liðið.

Þrír leikmenn bandaríska liðsins, Sue Bird, Tamika Catchings og Diana Taurasi, voru að vinna síns þriðju gullverðlaun á Ólympíuleikum því þær voru einnig með í Aþenu 2004 og í Peking 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×