Innlent

Ys og þys við lokun Europris

Myndin er tekin við opnun rýmingarsölunnar í morgun.
Myndin er tekin við opnun rýmingarsölunnar í morgun. mynd: Vilhelm
Viðbrögðin við rýmingarsölu Europris verslananna létu ekki á sér standa en framkvæmdastjórinn Matthías Sigurðsson sagði í samtali við Vísi rétt í þessu að sala gengi vonum framar og það væri sannarlega nóg að gera. En eins og greint var frá í morgun fengu allir starfsmenn Europris uppsagnarbréf um mánaðarmótin og verður verslununum lokað af afstöðnum rýmingarsölum sem hófust í dag. Sjálfur sagði Matthías það blendna tilfinningu að segja skilið við reksturinn enda hefði hann byggt upp þetta verkefni í tíu ár og sárt að þessi staða hefði þurft að koma upp. ,,Það á svo alveg eftir að koma í ljós hvað ég fer að gera næst, nú gengur bara fyrir að klára þetta verkefni."

Formaður VR, Stefán Einar Stefánsson, segist nú þegar vera í góðum samskiptum við starfsfólk Europris, sem situr nú eftir atvinnulaust. Stefán telur þetta jafnframt vera mikið áfall fyrir alla. ,,Það er ákaflega erfitt að setja sig í spor þeirra sem misstu vinnuna svo snögglega. Við höfum fylgst náið með gangi mála en til stendur að funda með starfsfólkinu þar sem farið verður yfir stöðuna. Eins munum við aðstoða starfsfólkið við alla faglega ráðgjöf og tryggja að meðferð mála þeirra sé réttmæt. Við munum vísa til ráðgjafa, náms og vinnumálastofnana og tryggja að fólkið komist aftur til starfa sem og fái alla ráðgjöf varðandi atvinnuleysisbætur og slíkt. Þannig reynum við að stýra fólki í gegn með markvissum hætti og koma í vef fyrir óþarfa skakkaföll. Álagið er nóg nú þegar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×