Handbolti

Ágúst: Verður mjög erfitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
klárar í slaginn Þær Hanna G. Stefánsdóttir, Karen Knútsdóttir, Hrafnhildur Skúladóttir og Dröfn Haraldsdóttir brostu sínu blíðasta í gær.fréttablaðið/stefán
klárar í slaginn Þær Hanna G. Stefánsdóttir, Karen Knútsdóttir, Hrafnhildur Skúladóttir og Dröfn Haraldsdóttir brostu sínu blíðasta í gær.fréttablaðið/stefán
Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari tilkynnti í gær hvaða leikmenn munu bera uppi heiður Íslands á Evrópumeistaramóti kvenna sem hefst í Serbíu næstu viku. Markvörðurinn Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir og skyttan Birna Berg Haraldsdóttir misstu sæti sitt í hópnum í lokaniðurskurðinum. Áður höfðu Elísabet Gunnarsdóttir, Steinunn Björnsdóttir og Sunneva Einarsdóttir lent undir niðurskurðarhnífnum ásamt því að Þorgerður Anna Atladóttir dró sig úr hópnum af persónulegum ástæðum.

Einn nýliði er í hópnum og það er hinn 21 árs gamli markvörður FH, Dröfn Haraldsdóttir.

„Þetta kom mér á óvart. Ég vissi í fyrstu ekki hvernig ég átti að haga mér enda ótrúlega glöð," sagði brosmild Dröfn á blaðamannafundi HSÍ í gær. „Ég hef stefnt að því lengi að stimpla mig inn í landsliðið. Ég tók smá áhættu að fara í FH sem hafði lent í neðsta sæti árið áður. Þarna fæ ég mikið að spila, umgjörðin er flott og ég hef tekið framförum."

Landsliðsþjálfarinn Ágúst Þór viðurkenndi að það hefði verið óvenju erfitt að velja hópinn að þessu sinni enda úr stórum hópi góðra leikmanna að velja.

„Það var um margt að hugsa og valið erfitt. Markmannsstaðan var flókin enda með fjóra jafna markverði. Örvhenta staðan var líka erfið enda með marga gæðaleikmenn þar," sagði Ágúst en hann er alls óhræddur við að taka óreyndan markvörð með út.

„Hún hefur staðið sig frábærlega í deildinni sem og á æfingum með okkur. Hún spilaði líka vel í æfingaleik um helgina. Ég verð að vera samkvæmur sjálfum mér og velja þá leikmenn sem standa sig best á æfingum. Ég hef fulla trú á Dröfn."

Rakel Dögg Bragadóttir kemur aftur inn í liðið en hún er tiltölulega nýbyrjuð að spila aftur eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Ramune Pekarskyte er einnig valin en hún fékk íslenskan ríkisborgararétt á dögunum. Báðar léku þær undir stjórn þjálfarans hjá norska liðinu Levanger og hann þekkir þær því vel.

„Ramune er gríðarlega sterk. Hún kemur með aðra vídd í sóknarleikinn hjá okkur og við ættum að geta fengið auðveldari mörk utan af velli. Hún er ekta skytta og okkur hefur oft vantað mörk af níu til tíu metra færi," sagði Ágúst en hann hefur ekki áhyggjur af Rakel þó svo hún sé nýbyrjuð að spila á ný.

„Hún er reyndur leikmaður og hefur staðið sig vel síðan hún sneri aftur. Þær Karen eru góð blanda á miðjunni og svo er hún sterk í vörn. Það var aldrei spurning um að velja þær báðar."

Íslenska liðið er í gríðarlega erfiðum riðli og ekki margir sem hafa trú á því að liðið komist upp úr honum.

„Við stefnum að sjálfsögðu að því að fara upp úr riðlinum. Við vitum að það verður gríðarlega erfitt en það væri metnaðarleysi að stefna ekki að því. Ég hef ágætis trú á að það geti gengið upp en við þurfum þá á öllu okkar að halda. Við verðum að spila vel og agað á báðum endum vallarins. Ef við náum því þá trúi ég að við komum á óvart, förum upp úr riðlinum og gerum jafnvel eitthvað meira."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×