Innlent

Dýrara að ferðast um í Strætó

SV skrifar
Verð á kortum og afsláttarfargjöldum í Strætó mun hækka þann 1. desember næstkomandi. Staðgreiðslufargjald fyrir stakan miða helst þó óbreytt í 350 krónum.

Fram kemur í tilkynningu frá Strætó BS að þrátt fyrir hækkunina sé framlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu enn mun hærra en algengt sé í nágrannalöndunum.

Farþegum Strætó hefur fjölgað töluvert síðustu misseri og var þjónustan aukin verulega í ágúst síðastliðnum. Fram kemur í tilkynningunni að fjölgunin sé mest á annatímum að morgni og síðdegis, en þjónustutími vagnanna er nú lengri en áður og vögnum hefur verið fjölgað í takt við það.

Eftir þessa verðbreytingu munu farþegar greiða um 25 prósent af kostnaði hverrar ferðar. Hækkunin var samþykkt á stjórnarfundi Strætó þann 26. október síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×