Erlent

Stórhuga áform Walt Disney um Star Wars

Bandaríska fjölmiðlaveldið Walt Disney er stórhuga þegar kemur að þróun Star Wars söguheimsins.

Walt Disney keypti á dögunum framleiðslufyrirtæki George Lucas, Lucasfilm, en kvikmyndagerðarmaðurinn á heiðurinn bæði af Stjörnustríðsmyndunum og kvikmyndunum um Indíana Jones.

Arftaki Lucas og nýr framkvæmdastjóri Lucasfilm, Kathleen Kennedy, tillkynnti fyrr í vikunni að Walt Disney hefði í huga að framleiða fjölmargar kvikmyndir byggðar á söguheimi Stjörnustríðsmyndanna.

Í samtali við bandaríska miðilinn Entertainment Weekly sagði Kennedy að Disney hefði í huga að gefa út tvær til þrjár kvikmyndir á ári hverju.

Þetta er þvert á það sem hún sagði stuttu eftir að kaupin á Lucasfilm voru innsigluð. Þá sagði Kathleen að útgáfa Stjörnustríðsmyndanna tæki mið af kvikmyndunum um spæjarann James Bond sem að jafnaði koma út á þriggja ára fresti.

Þá sagði hún að nú þegar væri búið að velja leikstjóra fyrir næstu Star Wars myndina.

Kathleen vildi lítið tjá sig um fornleifafræðinginn Indiana Jones en sagði engu að síður að nær öruggt væri að ný kvikmynd um kappann myndi líta dagsins ljós á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×