Sport

Skorað á fyrirtæki að hjálpa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir er meðal efnilegustu sundmanna Íslands í dag.
Eygló Ósk Gústafsdóttir er meðal efnilegustu sundmanna Íslands í dag. Mynd/Anton
Íslenska afreksfólkinu í sundi barst í gær góður stuðningur þegar garðaþjónustan Sigur-garðar í Borgarnesi ákvað að styrkja íslensku keppendurna sem fara á EM í sundi í 25 m laug um 25 þúsund krónur.

Alls hafa ellefu náð lágmörkum fyrir mótið en sjö eru á leið utan.

Skorar fyrirtækið á önnur að gera slíkt hið sama en fyrir stuttu var tilkynnt að keppendur Íslands á mótinu þyrftu sjálfir að leggja út fyrir kostnaði sem hlytist af þátttöku við mótið, sem fer fram í Chartres í Frakklandi. Upphæð sem hver og einn þarf að leggja út fyrir er um 300 þúsund krónur.

Fjárútlát Sundsambands Íslands hafa verið meiri á árinu en búist var við enda margir sem unnu sér inn þátttökurétt bæði á Ólympíuleikunum í London og EM í 50 m laug sem fór fram í Debrecen í Ungverjalandi. Af þeim ástæðum var ekki hægt að fjármagna ferðakostnað íslensku keppendanna.

Þau fyrirtæki sem óska að leggja íslensku sundfólki lið geta haft samband við Sundsamband Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×