Fyrir jólin birtist í Fréttablaðinu gott greinarkorn um þá ágætu norsku söngkonu Sissel Kyrkjebø og m.a. að hún hefði við minningarathöfnina um þá sem dóu í morðunum vibjóðslegu í Ósló og Útey sungið ljóð Nordahls Grieg „Til æskunnar", sem þar var nefnt sálmur. Undirritaðan langar af því tilefni að hafa nokkur orð um ljóðið og skáldið.
„Til ungdommen" mætti svo sem vel kalla lofsöng en ekki sálm, enda var skáldið Nordahl Grieg enginn trúmaður en algjör friðarsinni og mikill mannvinur. Hann var frægur í Noregi og víðar, skrifaði ljóð, leikrit, sögur o.fl. Umdeildur var hann og einkum fyrir stjórnmálaskoðanir sínar, hann var sannur sameignarsinni og kommúnisti. Hann trúði vissulega of einlæglega á sósíalisma í Sovétríkjunum, eins og margir góðir hugsjónamenn og í trausti þess unnu slíkir ótrúleg afrek í kjara- og jafnréttismálum allrar alþýðu.
Á hans tímum var heldur ekki í augsýn nein önnur leið út úr ömurlegum kapítalisma og enn skelfilegri fasisma og nasisma, þegar t.d. Vesturlönd létu allt eftir Hitler í þeirri von að hann eyddi Sovétríkjunum og meintum sósíalisma í þeim. Nasistar voru reyndar almennt kristnir vel og margir „góðir" trúmenn, börðust undir kjörorðinu: „Gott mitt uns!", m.a. gyðingahatur þeirra átti sér og ekki síst rætur í skelfilegum ofsóknum kristni og kirkju á hendur gyðingum á öldum áður.
Nordahl barðist gegn innrás Þjóðverja í Noreg, flýði til Englands, varð foringi í hernum, aðallega sem maður frétta og upplýsingar þar. Hann fórst í sprengjuflugvél sem skotin var niður yfir Þýskalandi. Var um tíma á Íslandi ásamt konu sinni, leikkonunni Gerd sem lék þar. Hann eignaðist góða vini hér, ekki síst skáldið Magnús Ásgeirsson sem þýddi mörg ljóða hans og ljóðabókin „Friheten" var fyrst gefin út hér. „Til ungdommen" er óður og ákall friðar- og mannvinarins til æskunnar og enginn sálmur, enda er það bull að kristin trú sé friðartrú, öll saga hennar sannar annað.
Hákristnir leiðtogar hafa og margir verið einhverjir mestu fjöldamorðingjar sögunnar. Norðmenn og reyndar fleiri, svo sem Danir, hafa þetta kvæði mjög í heiðri. T.d. var það söngur grunnskóla tveggja barna minna þar. Þá þýddi ég það á íslensku. Það er engin tilviljun að Sissel skyldi fengin til að syngja þetta ljóð við nefnda minningarathöfn. Mér sýnist ekki úr vegi að birta það hér og gjarnan þýðingu mína líka: