Innlent

Virkni lyfs kemur í ljós mun fyrr en áður

Dr. Kristinn mun nýta styrkinn til að þróa nýja tækni við lyfjarannsóknir.
Dr. Kristinn mun nýta styrkinn til að þróa nýja tækni við lyfjarannsóknir.
Íslenskur vísindamaður, doktor Kristinn B. Gylfason, er einn þriggja vísindamanna við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi, sem hlotið hafa 3,8 milljónir sænskra króna í styrk frá Sænska rannsóknaráðinu, jafngildi um 70 milljóna íslenskra króna, til þess að þróa nýja tækni við lyfjarannsóknir. Með nýju tækninni, svokallaðri míkró- og nanótækni, verður hægt að sjá hvernig hver einstök fruma bregst við lyfjagjöf, að sögn Kristins.

„Núna er lausn með þúsundum frumna hellt í tilraunaglas og lyfi blandað út í. Flúrljómandi merki lýsir upp lausnina ef frumur sýna viðbragð. Ókosturinn við þessa aðferð er sá að aðeins er hægt að sjá hvernig meðalfruman bregst við. Með nýrri tækni festum við frumurnar í miðju skynjara og mælum viðbrögðin þegar lyfið kemur að frumunni. Þá er hægt að sjá viðbrögð hverrar frumu og lyfjafyrirtækin geta skilið miklu fyrr hvernig lyfin virka,“ segir Kristinn. Hann tekur fram að sé mikill mismunur á viðbrögðum frumnanna þýði það að lyfið sé ekki mjög gott. Nú sé erfitt að sjá slíkt þar sem aðeins sjáist viðbrögð meðalfrumunnar.

„Með okkar rannsókn er hægt að sjá hvort allar frumur bregðast eins við eða hvort um breytileika sé að ræða. Þetta er hægt að gera án þess að blanda inn þriðja efninu en þegar það er gert er alltaf hætta á að það trufli tilraunina.“ Kristinn segir markmiðið vera að reyna að draga úr sívaxandi kostnaði við lyfjaþróun sem sé mikið vandamál.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×