Innlent

Læknafélagið snýr út úr ummælum

Bryndís Kristjánsdóttir
Bryndís Kristjánsdóttir
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands (LÍ), snýr út úr ummælum staðgengils skattrannsóknarstjóra ríkisins, Gunnars Thorberg, í bréfi til embættisins á föstudaginn. Þetta er mat Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra sem greint var frá í fréttum Bylgjunnar í gær.

Þorbjörn segir í bréfi til skattrannsóknarstjóra að í ummælum Gunnars í Fréttablaðinu á föstudag hafi falist alvarlegar ásakanir um skattalagabrot allra lækna.

Gunnar sagði að það væri „ekkert sérlega gaman að vita af því að [læknar] séu ekki með sitt á hreinu,“ varðandi núverandi rannsókn embættisins á fjármálum lýtalæknis og hugsanlega fleiri lækna í kjölfarið. Bryndís segir í svarbréfi til LÍ að Gunnar sé augljóslega ekki að vísa til allra lækna í þeim skilningi að skattsvik hvers og eins séu athugunarverð, heldur að þetta einstaka mál bendi til þess að skattskil atvinnugreinarinnar séu ekki án undantekninga í samræmi við lög. Ekki sé því annað séð en LÍ setji annan og jafnvel andstæðan skilning í umrædd orð Gunnars.

Vegna þessa telur Bryndís að engar forsendur séu til að embættið grípi til aðgerða, en LÍ fór fram á að embættið birti leiðréttingu í Fréttablaðinu og á Vísi vegna ummæla Gunnars á föstudag. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×