Innlent

„Maðurinn haldi sig til hlés á þessum helga stað“

„Göngubrúin er upphaf gönguleiðarinnar um þinghelgina,“ segja höfundar tillögunnar sem hlaut fyrstu verðlaun dómnefndar Þingvallanefndar.
„Göngubrúin er upphaf gönguleiðarinnar um þinghelgina,“ segja höfundar tillögunnar sem hlaut fyrstu verðlaun dómnefndar Þingvallanefndar. Mynd/Studio Grandi - Efla
„Tillagan snýst um lágmarks rask í gjánni og hefur það sjónarmið að maðurinn skuli halda sig til hlés á þessum helgum stað,“ segir í tillögu Studio Granda og verkfræðistofunnar Eflu sem fékk fyrstu verðlaun í samkeppni Þingvallanefndar um gönguleið niður í Almannagjá eftir að sprunga opnaðist þar óvænt í fyrra.

„Framkvæmdin er hugsuð eins einföld og hægt er þar sem tíminn er naumur og áhersla er lögð á að auðvelt verði fjarlægja mannvirkið án þess að nokkur ummerki sjáist,“ segja höfundar tillögunnar sem fá 400 þúsund krónur í verðlaun. Átta tillögur bárust.

Gólf brúarinnar verður úr sitkagreni úr Skorradal og á að hvíla á langbitum úr rekaviði og laga sig að sprungunni. Handriðið verður úr ryðguðum efnispípum sem net úr basalttrefjum verður strengt á milli.

„Stígurinn liggur þétt við klappir og annað undirlag í sprungunni og lagar sig að nokkru leyti að legu hennar án þess þó að þekja hana eða draga athygli að henni um of,“ segir í umsögn dómnefndar sem kveður verðlaunatillöguna áreynslulausa.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×