Innlent

Gjöld á flug komin að ýtrustu mörkum

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir svo kunna að vera að gjöld á innanlandsflug séu komin á ýtrustu mörk. Hann varar þó við miklum upphrópunum varðandi málið og segir gjöldin hafa hækkað minna en vísitalan síðustu ár. Málið var rætt á Alþingi í gær.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi. Hann sagði innanlandsflugið í alvarlegri stöðu. Því ylli bæði óvissa með Reykjavíkurflugvöll og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Ríkisvaldið hefði fylgt marxískri stefnu undanfarin ár með það að leggja opinber gjöld á innanlandsflugið sérstaklega.

„Á næstu tveimur árum verða gjöld á Reykjavíkurflugvöll hækkuð um 250 milljónir í tveimur áföngum, á atvinnustarfsemi sem veltir fjórum milljörðum árlega.“

Ráðherra sagði gjöldin undir vísitöluhækkunum, en með hækkun í apríl, og enn frekari hækkun, færu þau yfir þau mörk. Hluta þeirra mætti skýra með viðhaldi, en í stað þess að setja einn milljarð af fjárlögum í viðhald flugvalla hefði verið valin sú leið að setja umrædd gjöld á.

Einar krafði ráðherra um afstöðu sína varðandi staðsetningu flugvallarins. Ögmundur áréttaði þá skoðun sín að hann ætti að vera þar sem hann er. Hann vildi ná betra jafnvægi á flutningum á lofti, láði og legi og flugvöllur í Vatnsmýri væri grundvöllur þess.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×