Innlent

Hending að ekki hlaust af bani

Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhald yfir manninum til 9. mars.
Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhald yfir manninum til 9. mars. Fréttablaðið/anton
Mál rúmlega tvítugs manns sem stakk annan með hnífi í Kópavogi aðfaranótt 3. febrúar er rannsakað sem tilraun til manndráps. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði, sem Hæstiréttur staðfesti í fyrradag.

Hnífurinn, sjálfskeiðungur með átta sentimetra blaði, olli áverkum á nýra og milta og er það mat lækna að aðeins tilviljun hafi ráðið því að stungan lenti ekki í stærri æðum sem hefði getað valdið því manninum blæddi út á stuttum tíma. Fjarlægja þurfti úr honum miltað vegna árásarinnar.

Árásarmaðurinn, sem kærasta hans lýsir sem „hnífaáhugamanni“ sem gangi oftast nær um með hníf á sér, var undir áhrifum morfíns. Hann segir þolandann hafi átt upptökin að átökunum og hann hafi óttast að bíða af þeim bana. Hann hafi því stungið hann í sjálfsvörn.

Jón Steinar Gunnlaugsson skilar sératkvæði og segir ekki einsýnt að maðurinn sé hættulegur almenningi. „Í málsgögnum kemur fram að brotaþoli hafði að mun meiri líkamsburði en varnaraðili sem átti í vök að verjast í átökunum. Leiddi þetta til þess að varnaraðili greip til þess óyndisúrræðis að bregða hnífnum á brotaþola,“ segir í sératkvæðinu.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×