Innlent

Vafasamt greiðslumat leysir fólk undan ábyrgð á lánum

Bróðirinn tók lánið hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar árið 2006. Þremur og hálfi ári síðar var hann gjaldþrota.
Bróðirinn tók lánið hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar árið 2006. Þremur og hálfi ári síðar var hann gjaldþrota. Fréttablaðið/stefán
Héraðsdómur leysir mann undan ábyrgð á láni bróður síns því að Íslandsbanki á engin gögn um greiðslumat. Getur haft áhrif á fjölmarga, segir umboðsmaður skuldara. Fallið frá ábyrgð í þriðjungi vafamála.

Maður sem gekkst í ábyrgð fyrir láni bróður síns árið 2006 hefur verið leystur undan henni með dómi. Ástæðan er sú að bankinn sem veitti lánið getur ekki sýnt fram á að greiðslugeta bróðurins hafi raunverulega verið metin á sínum tíma.

Dómurinn hefur fordæmisgildi fyrir fjölda fólks, að því gefnu að hann standi, segir Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara.

„Það eru fjölmargir ábyrgðarmenn á lánum einstaklinga þar sem ekki hefur verið farið eftir þessu samkomulagi og ábyrgðin ætti því að falla niður," segir Svanborg og vísar til samkomulags frá 2001 um notkun ábyrgða, sem dómurinn telur að hafi ekki verið virt í þessu tilviki.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í fyrradag. Hann snýst um 1,3 milljóna króna lán sem maður tók hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem síðar varð Byr, til að kaupa sér lóð á Akranesi.

Hann var úrskurðaður gjaldþrota haustið 2009 og í kjölfarið gekk Byr að bróður hans, þeim sem höfðaði málið, á grundvelli ábyrgðarinnar og gerði fjárnám í tveimur fasteignum hans. Eftir að hann ákvað að fara með málið fyrir dóm var beðið með að taka af honum húsin.

Maðurinn fór fram á að fjárnámið yrði ógilt þar sem Íslandsbanki, sem hefur tekið Byr yfir, gæti ekki sýnt fram á að greiðslugeta bróður hans hefði verið metin á sínum tíma, þótt svo segði á skjölum sem maðurinn undirritaði. Hann fullyrðir að hann hefði aldrei gengist í ábyrgð fyrir bróður sinn ef mat á greiðslugetu hans hefði bent til þess að hann gæti ekki efnt skuldbindingar sínar, eins og síðar kom í ljós.

Íslandsbanki fullyrðir að greiðslumatið hafi verið unnið en hins vegar hefur komið í ljós að gögn um það eru hvergi til. Niðurstaða héraðsdóms er að bankinn þurfi að bera kostnaðinn og er ábyrgðinni því vikið til hliðar.

Svanborg segir að embætti Umboðsmanns skuldara hafi fengið inn á borð til sín tæplega tvö hundruð mál þar sem kanna þarf gildi ábyrgða. „Og þar af hefur verið fallið frá ábyrgð í um þriðjungi mála," segir hún. Öllu jafna snúist það um hvernig staðið var að greiðslumatinu.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×