Innlent

Ólíkar væntingar um vöxt fjárfestingar

Búist er við því að hagvöxtur muni á næstunni byggja á aukinni fjárfestingu fremur en aukinni einkaneyslu sem hefur verið helsti aflvaki hagvaxtar upp á síðkastið.
Búist er við því að hagvöxtur muni á næstunni byggja á aukinni fjárfestingu fremur en aukinni einkaneyslu sem hefur verið helsti aflvaki hagvaxtar upp á síðkastið. Fréttablaðið/anton
Talsverður munur er á nýbirtum hagvaxtarspám Seðlabankans og ASÍ. Seðlabankinn spáir 2,5% hagvexti á þessu ári en spá ASÍ hljóðar upp á 1,5% vöxt. Skýrist munurinn að stórum hluta af ólíkum væntingum um vöxt fjárfestingar í hagkerfinu.

Telur Seðlabankinn að fjármunamyndun aukist um 17,5% á árinu en ASÍ gerir ráð fyrir 9,4% vexti. Í spánni fyrir árið 2013 snýst þetta svo við þar sem ASÍ spáir 17,6% vexti í fjárfestingu en Seðlabankinn 6,5% vexti.

Spá Seðlabankans byggir meðal annars á væntingum um umtalsverða aukningu á fjárfestingu í skipum og flugvélum. Þá virðist Seðlabankinn gera ráð fyrir nokkurri aukningu í fjárfestingu í stóriðju en gerir þó ekki ráð fyrir nýjum verkefnum svo sem álveri í Helguvík.

Meðal annarra helstu áhættuþátta með tilliti til hagvaxtar eru þróun alþjóðahagkerfisins og verðþróun helstu útflutningsafurða. Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram að spár um hagvöxt á þessu ári í flestumviðskiptalöndum Íslands hafi verið lækkaðar. Þá hafa spár um vöxt alþjóðaviðskipta einnig verið lækkaðar og Seðlabankinn því brugðist við með því að lækka spá sína um vöxt útflutnings.

Þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að verð helstu útflutningsafurða verði nokkru óhagstæðara en áður var talið. Álverð er talið verða um 7% lægra á þessu ári en í fyrra. Verð á sjávarafurðum er aftur á móti talið líklegt til að hækka um 4% en áður spáði bankinn 6% hækkun.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×