Innlent

Barnabækur rifnar úr hillum bókasafns

Líflegt hefur verið um að litast á Barnabókasetrinu, sem hefur verið opið í tvær vikur í dag.
Líflegt hefur verið um að litast á Barnabókasetrinu, sem hefur verið opið í tvær vikur í dag. mynd/amtsbókasafnið á akureyri
Fleira fólk leggur leið sína á Amtsbókasafnið á Akureyri en áður. Starfsfólkið tengir fjölgunina við umræðu um lestur barna. Mjög ánægjulegt að fólk skuli bregðast við og lesa fyrir börnin, segir Hólmsteinn Hreinsson amtsbókavörður.

Aðsókn og útlán á Amtsbókasafninu á Akureyri hafa aukist mikið á síðustu vikum. Bókasafnið hefur opnað sýningu um yndislestur og opnað barnabókasetur, en amtsbókavörðurinn segir almenna umræðu um lestur barna einnig hafa ýtt við fólki.

„Við tókum eftir því að barnabókunum í barnadeildinni hjá okkur fækkaði, þær bara hurfu,“ segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður. Hann segir að til hafi verið aukaeintök af bókum í geymslu og því hafi verið hægt að bæta við bókum.

„Þá fórum við að gefa því gaum að það væri mikið af fólki að koma með börnin sín.“ Í kjölfarið hafi starfsfólkið veitt því athygli að fólk hafi komið til að fá ný bókasafnsskírteini, margir hafi framvísað gömlum skírteinum sem eru ekki lengur í notkun og margir sögðust ekki hafa komið á bókasafnið í langan tíma fyrr en nú.

„Okkur fannst þetta afskaplega gleðilegt og ánægjulegt og rekjum þetta beint til þessarar umræðu. Það er mjög ánægjulegt að fólk skuli bregðast við, það vísar til þess að menn séu að vakna, segir Hólmkell. Hann segir umræðu í samfélaginu og fréttir af dvínandi áhuga og lestrargetu barna hafa náð til fólks.

„Og það sem mér finnst ekki síður mikilvægt er upplifunin af því ef fólk er farið að lesa fyrir börnin sín. Það er gott fyrir foreldrana og börnin.“

Fyrir hálfum mánuði var opnað Barnabókasetur á bókasafninu í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Minjasafnið. Samhliða því var opnuð sýningin Yndislestur æsku minnar, þar sem þekkt fólk var fengið til að birta hugleiðingar um minnisstæða barnabók.

„Í kringum opnunina varð mikil umræða á Akureyri, sem kemur í framhaldi af umræðunni á landsvísu. Ég held að þetta sé allt að hjálpast að. Það er ekki bara af því að við gerðum þetta hér. Fólk sér líka að þarna er eitthvað sem það getur gert í málunum, sem er bæði gott og einstaklega ódýrt.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×