Innlent

Takmarkanir hafa lítil áhrif á RÚV

Katrín Jakobsdóttir segir að hún vilji gjarnan takmarka auglýsingaþátttöku RÚV, en án þess að skerða heildartekjur fyrirtækisins.
Katrín Jakobsdóttir segir að hún vilji gjarnan takmarka auglýsingaþátttöku RÚV, en án þess að skerða heildartekjur fyrirtækisins. fréttablaðið/anton brink
Meðallengd sjónvarpsauglýsinga í dagskrá Ríkisútvarpsins (RÚV) er rúmlega þriðjungur af því hlutfalli sem nýtt frumvarp um starfsemi fyrirtækisins takmarkar þær við. Þetta kemur fram í tölum sem teknar voru saman fyrir Fréttablaðið. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir frumvarpið geta tekið breytingum ef athugasemdir við það gefa tilefni til þess.

Meðallengd sjónvarpsauglýsingahólfa á kjörtíma, milli 18 og 23, hjá RÚV er 3,7 mínútur á klukkutíma, samkvæmt tölum sem teknar hafa verið saman fyrir Fréttablaðið. Nefnd mennta- og menningarmálaráðherra um endurskoðun laga um RÚV skilaði af sér drögum að frumvarpi til laga í síðustu viku. Samkvæmt því á RÚV að takmarka hlutfall auglýsinga í dagskrá sinni við tíu mínútur á klukkutíma.

Í tölunum kemur einnig fram að meðallengd auglýsingahólfa hjá RÚV á kjörtíma í desember, sem er helsti auglýsingamánuður ársins, var 5,2 mínútur á klukkutíma. Alls fór lengd auglýsinga hjá RÚV yfir tíu mínútur í tíu klukkutíma í mánuðinum. Lengsta auglýsingahólfið var 11,7 mínútur á milli klukkan 22 og 23 á gamlárskvöld, en útsending Áramótaskaupsins hófst klukkan 22.30 á þeim degi. Takmörkunin mun því ekki hafa teljandi áhrif á sölu RÚV á sjónvarpsauglýsingum nema nokkra klukkutíma á ári.

Til viðbótar við ofangreindar takmarkanir verður RÚV gert óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði til að koma að auglýsingum, vöruinnsetning verður gerð óheimil í innlendri dagskrárgerð og fyrirtækið þarf að birta gjaldskrá sína opinberlega.

Katrín segist gjarnan vilja takmarka auglýsingaþátttöku RÚV. Hún vill þó gera það án þess að skerða heildartekjur fyrirtækisins.

„Nefndin teiknaði upp einhvers konar takmarkanir og vill láta RÚV birta gjaldskrá og öll afsláttarkjör. RÚV metur það sem svo að þessu fylgi skerðing á tekjum upp á 186 milljónir króna. Síðan á eftir að fara yfir þessar tillögur og ég reikna með að þingið eigi eftir að skoða þær. Það sem ég hef alltaf sagt er að ég vil gjarnan takmarka auglýsingaþátttöku RÚV, en ekki skerða tekjur fyrirtækisins. Við erum að auglýsa eftir athugasemdum við frumvarpið og þær kynnu að hafa áhrif á það.“

Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin rennur út í dag. Katrín reiknar með að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í byrjun marsmánaðar.thordur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×