Innlent

Þörf á breyttri stefnu gagnvart arabalöndunum

Spænski fræðimaðurinn Jordi Vaquer i Fanes hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hann sagði ESB þurfa að endurskoða stefnu sína gagnvart arabaríkjum.
Spænski fræðimaðurinn Jordi Vaquer i Fanes hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hann sagði ESB þurfa að endurskoða stefnu sína gagnvart arabaríkjum. Fréttablaðið/Stefán
Áhrif Vesturlanda í arabalöndum eru sífellt að dvína að mati Jordi Vaquer i Fanes, forstöðumanns alþjóðamálastofnunar háskólans í Barcelona, sem hélt nýlega fyrirlestur í Háskóla Íslands um stefnu og stöðu Evrópusambandsins í heimshlutanum í kjölfar arabíska vorsins. Stefnubreytingar sé því þörf.

Vaquer sagði í samtali við Fréttablaðið að hingað til hafi Bandaríkin og Evrópa haft talsvert að segja um framgang mála, Bandaríkin í Mið-Austurlöndum og Evrópa í Norður-Afríku. Nýlegir atburðir eins og brotthvarf Bandaríkjanna frá Írak, byltingarnar í arabaheiminum og kreppan í Evrópu hafi þó orðið til þess að draga mjög hratt úr áhrifum þeirra á svæðinu.

„Evrópulöndin komu hvergi að upphafi arabíska vorsins þannig að þau eiga enga kröfu um að móta ferlið í framhaldinu.“

Vaquer segir því ólíklegt að þau geti haft bein áhrif á framvinduna innan ríkja, til dæmis hvað varðar kosningaúrslit. Hann bætir því þó við að Evrópulönd hafi engu að síður þrjá valkosti í málinu.

„Í fyrsta lagi geta þau beitt efnahagshvötum sem þau lofa ríkjum sem fara í ákveðna átt. Í annað stað geta þau beitt þvingunum með því að segjast ekki munu sitja hjá aðgerðarlaus ef einhvers konar kúgun og ofbeldi á sér stað. Loks geta þau haft áhrif með því að leggja frekari áherslu á að vera mikilvægur markaður og viðskiptafélagi fyrir svæðið.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×