Innlent

Möguleikar fyrir sérþekkingu Íslendinga

Samkomulagið undirritað Utanríkisráðherra undirritaði samstarfsyfirlýsingu um samvinnu í orkumálum við japanska sendinefnd sem stödd er hér á landi. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Samkomulagið undirritað Utanríkisráðherra undirritaði samstarfsyfirlýsingu um samvinnu í orkumálum við japanska sendinefnd sem stödd er hér á landi. Fréttablaðið/Vilhelm
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra undirritaði fyrir helgi yfirlýsingu um víðtækt samstarf Íslands og Japans á sviði jarðhitanýtingar. Japönsk sendinefnd, þar sem meðal annarra eru þingmenn og fulltrúar frá þarlendum fyrirtækjum og stofnunum, er stödd hér á landi til að kynna sér nýtingu jarðhita, en í Japan standa fyrir dyrum miklar breytingar í orkumálum.

Fram að hörmungunum sem riðu yfir Japan fyrir rétt tæpu ári síðan var tæpur þriðjungur rafmagnsframleiðslu í landinu háður kjarnorkuverum. Slysið sem varð í Fukushima kjarnorkuverinu eftir náttúruhamfarirnar olli mikilli umhverfisvá sem ekki sér enn fyrir endann á.

Ein afleiðing þessa er að Japanir hafa endurskoðað alla sína orkustefnu með það fyrir augum að loka öllum 54 kjarnorkuverum landsins á næstu árum og auka þess í stað hlut endurnýjanlegra orkugjafa.

Talsverður hiti er í jörð í Japan, enda er landið á eldfjallaeyju á flekaskilum, og þar hefur jarðhiti verið notaður til raforkuframleiðslu. Í samtali við Fréttablaðið segir Össur hins vegar að áhersla Japana með samkomulaginu sé ekki síst að sækja íslenska sérþekkingu í uppsetningu hitaveitna.

„Þó þeir hafi að vissu leyti verið frumkvöðlar í raforkuframleiðslu úr jarðhita hefur sú tækni staðnað hjá þeim, en hér á landi sjá þeir fremstu tækni bæði í raforkuframleiðslu og hitaveitu. Þeir nota jarðhita til að framleiða rafmagn en nota ekki vatnið sem fellur til, sem við notum til að hita um 80% af íslenskum húsum."

Fundirnir að þessu sinni snerust einmitt um með hvaða hætti Íslendingar gætu séð Japönum fyrir þekkingu og sérfræðingum. Össur segir markmið Japana einmitt að ráðast í verkefnið eins fljótt og auðið er.

Össur segir líklegt að ef af yrði gæti aukin áhersla á hitaveitu Japan ráðið bót á þörf landsins fyrir hreina orku og sparað þjóðarbúinu mikinn gjaldeyri vegna minni innflutnings. Þá hafi Japanir metið það sem svo að með aukinni nýtingu á jarðhitasvæðum sínum gætu þeir framleitt raforku sem jafngildi framleiðslu 23ja af þeim kjarnorkuverum sem til stendur að leggja niður.

„Sömuleiðis skapast þarna miklir möguleikar fyrir Ísland og Íslendinga að koma sinni þekkingu á markað."

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er haft eftir formanni japönsku nefndarinnar að innan japanska þingsins væri „lögð höfuðáhersla á að mæta orkuþörf landsins með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og þar væri jarðhiti afar mikilvægur".thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×