Fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir bar sigur úr býtum í netkosningu vefsíðunnar Style.com um val á best klæddu fyrirsætu tískuvikunnar í London. Valið stóð á milli tíu fyrirsæta en Kolfinna hlaut alls 42 prósent atkvæða og hreppti þar með fyrsta sætið í netkosningunum.
Annað sætið hreppti Cara Delevingne sem hlaut 37 prósent atkvæða og í þriðja sæti kom Jourdan Dunn sem fékk 7 prósent atkvæða.
Nú stendur yfir val á best klæddu fyrirsætu tískuvikunnar í Mílanó og keppa meðal annars ofurfyrirsæturnar Naomi Campbell og Lily Donaldson um þann titil. Að lokum verður hægt að kjósa á milli sigurvegara hverrar tískuviku fyrir sig og verður Kolfinna í þeim hópi.
Hægt er að taka þátt í kosningunni hér á vefsíðu Style.com.
