Skoðun

Hjólin snúast

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Nýjar tölur Hagstofu Íslands um 3,1% vöxt á landsframleiðslu á árinu 2011 gefa sterka vísbendingu um að nú sé tekið við nýtt tímabil í efnahagslífi landsins eftir kreppu hrunáranna. Er þessi vöxtur meiri en flestir greinendur gerðu ráð fyrir. Vöxtur sem er jafn kröftugur og þessi stuðlar að bættum lífskjörum, aukinni atvinnu, frekari fjárfestingu og ekki síst skapar hann forsendur til að takast á við mörg þau vandasömu verkefni er hrunið hefur skilið eftir sig. Til að mynda stuðlar þetta að bættum rekstri ríkissjóðs í formi aukinna tekna og möguleika til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Eftir hrun fjölgaði stórkostlega í hópi úrtöluradda og það verulega á hlut bjartsýnisspámanna góðæristímans. Báðar fylkingar eiga það þó sammerkt að málflutningur þeirra er oft einsleitur og innihaldsrýr. Þannig hafa fulltrúar úrtölumanna amast við því að hjól atvinnulífsins fari ekki í gang og hér sé enginn hagvöxtur.

Nú er raunin önnur eins og tölur Hagstofunnar sýna en þá tekur við nýr sálmur sömu manna um að hagvöxturinn sé ekki sú tegund af hagvexti sem þeir helst kjósa þar sem hann sé drifinn af einkaneyslu. Þó að rétt sé að einkaneyslan hafi aukist dróst hún verulega saman á árunum 2009 og 2010. Þegar rýnt er í tölurnar sést að einkaneyslan skýrir ekki vöxtinn í hagkerfinu ein og sér heldur hefur útflutningur reynst kraftmeiri og fjárfesting aukist verulega. Hagvaxtarhorfur á yfirstandandi ári eru vel viðunandi, ekki síst þegar horft er til hins alþjóðlega ástands.

Vöxtur hagkerfisins á Íslandi er athyglisverður í alþjóðlegum samanburði. Þannig eykst landsframleiðslan um 4,4% á þriðja ársfjórðungi og um 1,9% á fjórða ársfjórðungi en báðir þessir ársfjórðungar eru hærri en í öllum löndum ESB, Noregi, Sviss, Bandaríkjunum og Japan. Bendir þetta til þess að á meðan Ísland er að ná sér út úr kreppunni eru mörg ríki enn að kljást við neikvæð hagvaxtaráhrif hennar. Þó ber að hafa í huga að viðvarandi kreppa í helstu viðskiptalöndum okkar getur haft neikvæð áhrif á þróun mála hér.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×