Lífið

Skaupsstjórinn stígur á svið

Gunnar í hlutverki sínu sem litháíski hesturinn í sýningunni Ævintýri Múnkhásens.
Gunnar í hlutverki sínu sem litháíski hesturinn í sýningunni Ævintýri Múnkhásens.
„Þetta er mikið ævintýri," segir leikstjórinn Gunnar Björn Guðmundsson, sem hefur leikstýrt áramótaskaupinu á RÚV síðustu ár.

Gaflaraleikhúsið frumsýnir í dag klukkan 18 Ævintýri Múnkhásens, eftir Sævar Sigurgeirsson. Leikarar á borð við Gunnar Helgason, Ágústu Evu Erlendsdóttur og Magnús Guðmundsson fara með hlutverk í sýningunni og leikstjórinn Gunnar, sem leikstýrir reyndar ekki þessu verki, stígur einnig á svið.

Spurður hvort hann hafi gert Ágústu Skúladóttur, leikstjóra verksins, erfitt fyrir með stöðugum aðfinnslum segir Gunnar svo ekki vera. „Ég skil hvað leikstjórinn þarf að gera til að gera verkið frábært. Leikarinn verður að spila með," segir hann. Hann tekur þó fram að það sé bæði erfitt og gaman að stíga á svið á ný, en það gerði hann síðast fyrir sjö árum. „Þetta er rosalega góður skóli. Maður er alltaf að læra. Nú verð ég að gera það sem ég er búinn að vera að segja öðrum að gera. Þá öðlast ég skilning á sársauka þeirra," segir hann og rekur upp hrossahlátur.

Ævintýri Múnkhásens virðist höfða til allra aldurshópa. Forsýningar hafa staðið yfir og Gunnar segir að börn allt niður í tveggja ára gömul hafi skemmt sér konunglega ásamt unglingum og gamalmennum. „Þetta er fjölskyldusýning," segir hann.

Miðasala á sýninguna fer fram á vefsíðunni Midi.is. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.