Skoðun

Suðurorku í bið – Skaftársvæðið í vernd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Framkvæmdastjóri Suðurorku komst á forsíðu Fréttablaðsins fyrir nokkrum dögum vegna áforma fyrirtækisins um Búlandsvirkjun. Hvorki náttúrunni né heimamönnum var þar léð eyra. Nokkrar rangfærslur voru í fréttinni, en um mikilvægt náttúruverndarsvæði er að ræða.

Í fyrsta lagi var því slegið fram að Búlandsvirkjun hafi verið metin einn hagkvæmasti virkjanakosturinn í 1. áfanga rammaáætlunar (RÁ). Staðreyndin er sú að þessi virkjunarhugmynd var ekki metin í RÁ 1, heldur önnur útfærsla á virkjun í Skaftá (Skaftárvirkjun) sem gerði m.a. ráð fyrir því að búið væri að losa aur úr ánni með því að veita hluta hennar í Langasjó. Í öðru lagi er haft eftir framkvæmdastjóra Suðurorku: „Efnislegu rökin fyrir að setja okkur [áhersla er greinarhöfundar] í bið voru frekar slöpp. Hluti af því voru umræður um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs…“ Í drögum að þingsályktunartillögunni sem byggir á RÁ 2 segir að Búlandsvirkjun fari í biðflokk vegna þess að hugmyndin hafi komið seint fram og erfitt hafi verið að meta áhrif hennar, en veruleg óvissa ríkir um umhverfisáhrifin. Í þriðja lagi segir að Suðurorka ehf. hafi gert samninga við stærstan hluta vatnsréttarhafa vegna virkjunarinnar. Þetta er hrakið í grein eftir íbúa í Skaftártungu í Morgunblaðinu 29. mars sl. Þar kemur fram að einungis sé búið að semja við minnihluta þeirra aðila sem málið varðar.

Framkvæmdastjóri Suðurorku segir einnig að Skaftárhrepp vanti sárlega búbót. Ég spyr: Er Búlandsvirkjun búbót þegar ljóst er að virkjunin skaðar þá atvinnuvegi sem Skaftárhreppur byggir á í dag, landbúnað og ferðamennsku, að ógleymdum óásættanlegum áhrifum á undirstöðu þessara atvinnugreina, náttúruna sjálfa?

Vatnasvið Skaftár var metið fimmta verðmætasta svæðið af 30 hjá faghópi I í 2. áfanga RÁ og Búlandsvirkjun var í hópi tíu vatnsaflsvirkjana sem myndu hafa hvað neikvæðust umhverfisáhrif. Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar RÁ er svæðið sem Búlandsvirkjun tilheyrir í hópi þeirra svæða sem hæst skora á öllum sviðum náttúru- og menningarminja, en þó sérstaklega fyrir jarðminjar og vatnafar, landslag og víðerni. Virkjunin yrði rétt við Eldgjá og áhrifasvæði hennar víðfeðmt.

Það er því mun ríkari ástæða að setja Búlandsvirkjun í verndarflokk en orkunýtingarflokk.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×