Þrír menn hafa verið dæmdir í þriggja og tveggja ára fangelsi fyrir smygl á tæpu kílói af mjög hreinu kókaíni. Þá var maður á áttræðisaldri dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að flytja efnið til landsins. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Maðurinn sem hlaut þyngstan dóminn heitir Andri Þór Eyjólfsson og er 25 ára gamall. Hann hefur áður hlotið fjölda refsidóma fyrir margvísleg brot.
Hinir tveir, Ágúst Jón Óskarsson og Hafþór Logi Hlynsson, hlutu báðir tveggja ára dóm fyrir smyglið. Ágúst Jón verður þrítugur á árinu en Hafþór 25 ára.
Fram kemur í dómnum að kókaínið var af miklum styrkleika og hefði mátt drýgja þannig að úr yrðu rúm þrjú kíló í sölu.
Maðurinn sem flutti efnin til landsins er fæddur árið 1941. Hann var handtekinn í febrúar 2010 þegar hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Efnið var falið í ferðatösku.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu bar maðurinn að hann hefði verið þvingaður til þess að flytja efnið til landsins, meðal annars með líflátshótunum. Hann varð tvísaga um hvort hann hefði vitað að um kókaín væri að ræða.
Fram kemur í dómnum að við uppkvaðningu refsingar yfir manninum sem flutti efnin til landsins hafi verið litið til þess að hann upplýsti lögreglu um málið auk þess sem tekið hafi verið tillit til aldurs mannsins. Ekkert benti til annars en að maðurinn hefði verið burðardýr, þótt framburður hans hefði verið mjög reikull.
Innlent