Viðskipti innlent

Virði fasteigna N1 lækkaði um tvo milljarða á sex mánuðum

Virði þeirra fasteigna sem hýsa starfsemi N1 rýrnaði um tæpa tvö milljarða króna á tæplega sex mánaða tímabili í lok árs 2011. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir það ár.

Fjárhagslegri endurskipulagningu N1 lauk með undirritun á frjálsum nauðasamningum félagsins 24. júní 2011. Ein af forsendum nauðasamningsins var að N1 myndi kaupa fasteignir Umtaks ehf., sem hýsa starfsemi N1, á 9,5 milljarða króna af Arion banka, sem hafði leyst til sín Umtak. Um sex mánuðum síðar var síðan framkvæmt virðisrýrnunarpróf á fasteignum félagsins. Í ársreikningi N1 segir að „niðurstöður virðisrýrnunarprófsins leiddu til gjaldfærslu í rekstrarreikningi að fjárhæð 1.988 millj. kr. og samvarandi lækkunar á bókfærðu virði fasteigna".

Við endurskipulagningu N1 í fyrrasumar varð Arion banki stærsti eigandi félagsins með 39% eignarhlut. Sá hlutur var seldur til Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) í lok september 2011 en viðskiptin voru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þau viðskipti hafa ekki enn verið kláruð. Gangi þau eftir mun FSÍ fara með tæplega 55% eignarhlut í N1. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×