Viðskipti innlent

Nauðasamningur gömlu Sjóvár orðinn endanlegur

Sjóvá Tryggingarekstur félagsins var seldur til nýrra eigenda.
Sjóvá Tryggingarekstur félagsins var seldur til nýrra eigenda.
Nauðasamningsumleitunum SJ Eignarhaldsfélags, sem áður hét Sjóvá, lauk 3. apríl síðastliðinn. Því er nauðasamningur félagsins orðinn endanlegur. Í honum felst að kröfuhafar fá 7% af 12 milljarða króna kröfum sínum, eða rúmlega 800 milljónir króna.

Kröfuhafarnir, sem eru þrotabú Glitnis, Landsbankinn, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) höfðu áhyggjur af því að há tekjufærsla, sem myndi myndast við gerð nauðasamningsins gæti haft í för með sér skattskuldbindingu sem félagið myndi ekki ráða við að greiða. Því gæti gerð hans kallað gjaldþrot yfir gömlu Sjóvá með tilheyrandi skiptakostnaði.

Á því höfðu kröfuhafarnir ekki áhuga. Því var ákveðið að fara þá leið í ferlinu að afskrifa öll hlutabréf og víkjandi lán en gefa síðan út ný hlutabréf sem nema 0,1% af samningskröfum til kröfuhafa. Þeir veittu síðan ný lán fyrir þeim 99,9% krafna sem eftir standa. Lánin bera enga vexti og gjalddagi þeirra er 31. mars 2015. Hann má framlengja um allt að fjögur ár. Með þessum hætti geta kröfuhafarnir tæmt félagið hægt og rólega eftir því sem eignir þess breytast í verðmæti. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×