Skoðun

Iðnaðurinn staðfestir einangrun Samfylkingar

Á Iðnþingi fyrir skemmstu ákallaði starfandi iðnaðarráðherra, Oddný Harðardóttir, þingheim og bað um stuðning við stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Orðrétt sagði Oddný: „Samfylkingin hefur – ein stjórnmálaflokka sem nú sitja á Alþingi – tekið skýra afstöðu um að stefna skuli að upptöku evru með inngöngu í ESB.“

Forysta Samfylkingarinnar finnur til sívaxandi einangrunar með það stefnumál sitt að Ísland skuli inn í Evrópusambandið. Oddný bað um stuðning við stefnu Samfylkingar með þessum orðum: „Ég kalla hins vegar eftir enn sterkari stuðningi frá aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins á þeirri vegferð sem framundan er við að sannfæra íslenska kjósendur um mikilvægi þess að við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru.“ Ákall starfandi iðnaðarráðherra til iðnaðarins er skiljanlegt í ljósi þess að Samtök iðnaðarins hafa löngum stutt Evrópustefnu Samfylkingar þótt áhöld hafi verið um hvort iðnfyrirtækin sjálf og forsvarsmenn þeirra styðji pólitík Samfylkingar.

Skömmu eftir Iðnþingið þar sem Oddný auglýsti einangrun Samfylkingar og óskaði eftir stuðningi við að rjúfa einangrunina birtist skoðanakönnun sem tók af öll tvímæli um afstöðu iðnaðarins. Könnunin, sem gerð er af Capacent Gallup fyrir Samtök iðnaðarins, leiðir í ljós að 68,8% fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Til samanburðar er könnun sem gerð var fyrir samtökin árið 2007. Þar sögðust 39,4% vera hlynnt aðild og 43,4% vera andvíg aðild.

Evran, sem löngum hefur verið tromp aðildarsinna, fær þá útreið í könnun Samtaka iðnaðarins að 45% svarenda sögðust á móti því að Ísland tæki upp evru, en 36,5% sögðust vilja að Ísland tæki upp evru. Iðnaðurinn hefur snúið baki við Samfylkingunni sem stendur einangraðri en nokkru sinni fyrr með ESB-umsókn í höndunum sem þjóðin vill ekki vita af. Eina rökrétta niðurstaðan er að afturkalla umsóknina.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×