Skoðun

Tölum saman!

Toshiki Toma skrifar
Um sextíu innflytjendur mættu á samkomuna „Tölum saman" sem var haldin af Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Fjölmenningarráði 28. apríl síðastliðinn.



Þetta var eins konar undirbúningssamkoma fyrir Fjölmenningarþing í haust, sem verður mikið stærri samkoma innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu. Mikið var rætt á þessari samkomu um hvers konar mál innflytjendur og borgin skyldu tala saman um. Skipulagningu kosninga til að kjósa fulltrúa innflytjenda, atvinnumál, dvalarleyfi, fordóma… ýmiss konar mál voru nefnd, þótt það væri ekki hægt að kafa djúpt í málefnin.



Það sem vakti athygli mína var hins vegar hversu mjög þátttakendur voru líflegir í umræðum og hve mikið þeir höfðu að segja. Þeir voru virkilega að njóta þess að taka þátt í umræðu með öðrum.



Við innflytjendur viljum ekki einungis tala um úrræði vandamála sem við mætum hérlendis, eða leita svara við spurningum. Að hitta aðra og tala saman er eftirsóknarvert í sjálfu sér og það hjálpar okkur mikið. En það gleymist oft hjá þeim sem veita innflytjendum þjónustu.



Ég hef sjálfur slæma minningu um slíkt. Fyrir tíu árum talaði ég sem prestur við nýskilda konu frá Afríku. Hjónaskilnaður var (og er) oft orsök áhyggja hjá innflytjendum um hvort þeir geti dvalið hér áfram eða ekki. Því spurði ég konuna um nokkur atriði um þau mál. Konan reyndist vera í góðu lagi og ég hélt að málinu væri lokið. En það var rangt hjá mér. Konan var fyrst og fremst döpur vegna skilnaðarins og vildi þess vegna tala.



Ég fagna því að borgin reyni að skapa fleiri tækifæri fyrir samtöl við okkur innflytjendur. Ég vona að fleiri sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök geri hið sama á næstunni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×